135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegi þingheimur. Ég tek skýrt fram að ég tel það ágætisfyrirkomulag að við tökum okkur sérstaklega tíma og fund í það að ræða Evrópumál og þó að það séu eingöngu samskipti okkar við Evrópusambandið eins og hér er gert. Ég hafði að vísu ekki áttað mig á því þegar ég las í stefnuræðu utanríkisráðherra, eða munnlegri skýrslu í nóvember sl., að umræðan hér yrði eingöngu um innri markað Evrópusambandsins og stöðu okkar á honum.

Þar sagði hæstv. utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég þó geta þess að í janúar nk. mun ég flytja Alþingi sérstaka skýrslu um Evrópumál. Um þau verður þess vegna ekki fjallað í ræðu minni að þessu sinni.“

Af þessu hefði mátt ætla að umræðan yrði um þátttöku okkar og starf á evrópskum vettvangi og þar kæmu fleiri samevrópskar stofnanir og fleiri viðfangsefni mögulega til greina en Evrópusambandið eitt og tengsl okkar við það í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. En það er auðvitað ekki aðalatriði þessa máls. Hér er farið í þetta með þessum hætti og ég tek fram og endurtek að það er þarft að við förum yfir þessi mál sérstaklega og ekki síst að það sé kortlagt og rætt sem fram undan er á þessum vettvangi.

Ég verð að vísu að segja að mér finnast vissar áherslur í þessari skýrslu með nokkuð áróðurskenndum blæ. Mikið er t.d. gert úr því að í raun og veru séum við Íslendingar svo gott sem í Evrópusambandinu. Ef skoðaður er texti á bls. 3 undir millifyrirsögninni Ísland í Evrópusamrunanum er m.a.s. gengið svo langt að segja að þessi nánu tengsl okkar við Evrópusambandið byggist á EES-samningnum sem í efni og eðli sínu er samningur um aðild Íslands að innri markaði ESB með sömu réttindum og skyldum og því fylgir fyrir aðildarríki ESB. Er það svo að í eðli sínu sé þetta sambærileg aðild?

Neðar er sagt, með leyfi forseta:

„Yfirlitið er sett fram í því skyni að sýna hve þétt Ísland er í raun ofið í Evrópusamrunann án þess þó að vera aðildarríki.“

Ég set viss spurningarmerki við þessa framsetningu. Ég held að hlutlæg greining á einmitt muninum á því að tengjast Evrópusambandinu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og hinu að vera aðildarríki væri þarfari framsetning og meira upplýsandi fyrir okkur. Ég lýsi reyndar eftir því að það sé gert þannig að mönnum sé það tiltækt og handhægt að bera saman: Í hverju er munurinn fólginn að vera í Evrópusambandinu eða tengjast því eins og við gerum í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?

Það kveður líka við gamalkunnan tón þegar það er fullyrt, eins og gert er í skýrslunni og reyndar í ræðu hæstv. ráðherra hér áðan, að við eigum eiginlega alla okkar velgengni samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að þakka. Á bls. 2 er sagt að samningurinn hafi reynst þjóðinni vel og sé „ein meginástæða uppgangs í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum.“

Nú er það svo að í gegnum pólitískar umræður heyrum við ýmsar skýringar á því af hverju Íslendingum gangi svona vel. Það er t.d. mjög algengt að Sjálfstæðisflokkurinn þakki það tæplega 17 ára valdatíð sinni í landinu. Framsóknarflokkurinn byrjar ævinlega 1995 og endar 2007 og segir: Þetta er allt saman tólf ára snilld Framsóknarflokksins í ríkisstjórn að þakka. Þegar menn vilja mæra stóriðjustefnuna segja þeir: Uppgangurinn núna er allur stóriðjufjárfestingunum að þakka. Aðrir segja: Einkavæðingin, það er hún sem hefur leyst úr læðingi svo mikla krafta og þess vegna er þrótturinn svona mikill í íslensku efnahagslífi. Enn aðrir segja: Útrásin, það er hún sem er svo stórkostleg og stækkar hér hagkerfið og þetta gengur allt svona vel.

Ja, hvað er nú satt í þessu? Ætli það geti ekki verið einhver blanda þar og það sé dálítið einfeldningsleg og áróðurskennd framsetning að afgreiða þetta á þann veg að við eigum þetta allt saman samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að þakka. Eða eru menn þá að stilla dæminu upp á þann hátt að ef hann hefði ekki orðið niðurstaðan um samskipti okkar við Evrópusambandið hefði ekkert annað komið í staðinn?

Ég mótmæli líka, og mér finnst hún ósanngjörn, greiningu hæstv. utanríkisráðherra á aðstæðum og atburðum hér fyrir 14 til 15 árum. Mér finnst það bæði rangt og sérstaklega ósanngjarnt að reyna að afgreiða þá hluti nú eins og að þar hafi tekist á annars vegar einangrunarsinnar, sem ekki hafi viljað neina alþjóðasamvinnu eða Evrópusamvinnu, og hins vegar hinir sem það hafi gert. Spurningin var ekki, er ekki og hefur aldrei verið um það hvort við ætlum sem Evrópuþjóð að vinna með öðrum Evrópuríkjum. Hún hefur verið, er og verður um það hvernig við gerum það, á hvaða formi sú samvinna verður, hvernig um hana verður búið. Ég mótmæli því að það hafi verið sérstaklega einangrunarhyggja eða óvilji til alþjóðasamstarfs sem réði afstöðu manna á þessum tíma, það á a.m.k. ekki við um þann sem hér talar.

Að öðru leyti var ágreiningurinn um Evrópska efnahagssvæðið auðvitað fyrst og fremst um það hvort hann stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar og það væri hægt að innleiða hann eins og gert var án almennra kosninga og stjórnarskrárbreytinga. Nú er svo komið að æ fleiri fræðimenn hallast að því að svo hafi ekki verið, að hið fræga álit fjórmenninganna sem byggt var á fái í raun og veru ekki staðist.

Eða er það þá þannig t.d. að Svisslendingar hafi fellt samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma vegna einangrunarhyggju? Nei, þeir völdu aðra leið, leið tvíhliða samninga um sín mál við Evrópusambandið. Var það einangrunarhyggja sem hefur leitt til þess að Norðmenn hafa í tvígang fellt að gerast aðilar að Evrópusambandinu? Nei, það er nefnilega akkúrat öfugt. Norðmenn hafa rekið og reka mjög virka utanríkisstefnu og leggja mikið í þátttöku sína bæði á Evrópuvísu og á alþjóðavettvangi. Norðmenn eru þjóð Óslóarsamninganna. Norðmenn eru þjóðin sem fer fyrir friðarumleitunum og friðargæslu á Srí Lanka. Norðmenn eru þjóð sem lagði mikinn metnað í frumkvæði sitt í Ríó-, Kyoto- og Jóhannesarborgarferlinu. Mjög algeng rök andstæðinga aðildar Noregs að Evrópusambandinu, sem nú eru þar í miklum meiri hluta, eru einmitt að aðild að Evrópusambandinu þrengi um of að möguleikum Norðmanna til að reka sjálfstæða og virka utanríkisstefnu. Ég hvet menn til að kynna sér þetta. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra kæmist ekki upp með það í umræðum á norska Stórþinginu að reyna að afgreiða andstæðinga aðildar að Evrópusambandinu með þessum hætti, að þeir væru bara gamaldags einangrunarsinnar og einhverjir ruglukollar. Þetta finnst mér ekki sérstaklega málefnalegt eða uppbyggilegt af hæstv. utanríkisráðherra þó að engum dyljist áhugi hæstv. ráðherra á því, eins og ræða ráðherra og skýrsla ber með sér, að reyna að túlka allt og toga og teygja í þá átt að að svo miklu leyti sem við séum þá ekki þegar í Evrópusambandinu hljótum við að vera á leiðinni þangað.

Margt væri þarft að ræða hér sem að hluta til er komið inn á í skýrslunni. Ég nefni t.d. stjórnarskrá Evrópusambandsins, hina nýju, sem nú má ekki lengur kalla svo af því að það nafn var fellt — hún er kölluð umbótasáttmáli en er að stofni til sama innihald, en þessi leið er valin einfaldlega vegna þess að þjóðir sem eru í hjarta Evrópusamstarfsins sjálfs, Frakkar og Hollendingar, kolfelldu stjórnarskrárdrögin. Þá var valin sú leið hjá Evrópusambandinu að skipta um nafn. Ekki var lagt í að reyna hina gamalkunnu aðferð að láta bara kjósa aftur þangað til rétt niðurstaða fengist heldur var skipt um nafn.

Margt er hér vel sagt um umhverfismál og ég tek undir það sem fram kemur í skýrslunni að það er mjög mikilvægt málasvið sem við þurfum að gefa gaum og þar er margt áhugavert á dagskrá á vettvangi Evrópusambandsins. Einnig má segja um orkumálin að þar séu hlutir sem við þurfum að skoða gaumgæfilega og reyndar höfum við þegar átt um það orðastað hér á þessum vettvangi, ég og hæstv. iðnaðarráðherra, hvað fram undan er í þeim efnum miðað við þær nýju áherslur sem kynntar voru 17. september sl. af Evrópusambandinu.

Aðeins um þjónustutilskipunina sem einnig er komið inn á hér í skýrslunni. Þar saknaði ég þess mjög að eitthvað væri sagt um Ísland og pólitískar aðstæður og viðhorf á Íslandi gagnvart því máli. Vitnað er til þess réttilega að andstaða hefur verið mikil við innleiðingu þjónustutilskipunarinnar í Noregi. Ríkisstjórn Noregs hefur falið óháðri sérfræðinganefnd að meta hvaða áhrif tilskipunin muni hafa í Noregi og er niðurstöðu að vænta næsta sumar. Reyndar, ef ég veit rétt, starfa undir þeirri nefnd fjórar sérfræðinefndir á viðkomandi sviðum sem eru allar að vinna að þessu máli. Hvar er sambærileg vinna á Íslandi? Hver eru viðhorf ríkisstjórnar Íslands til þjónustutilskipunarinnar?

Má ég þá minna á að hún er nátengd annars vegar því sem verið hefur í gangi á vettvangi alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, og alþjóðasviði þjónustuviðskipta. Við skulum líka hafa í huga nýfallinn dóm Evrópudómstólsins í Vaxholm-málinu svonefnda sem verður ekki fram hjá litið og eru grafalvarleg tíðindi fyrir norrænan launamarkað og réttindi launamanna og fyrir norræna velferðarsamfélagið í heild. Þar úrskurðar Evrópudómstóllinn að lettneskt fyrirtæki sem kom með starfsmenn sína að vinna í Vaxholm að tilteknu verkefni skuli komast upp með að greiða þeim laun samkvæmt lettneskum kjarasamningum en ekki almennum sænskum kjarasamningum. Ekki þarf að fjölyrða um hversu alvarlegt tilræði þetta er við hina almennu kjarasamninga á norrænum vinnumarkaði, sérstaklega auðvitað í Svíþjóð þar sem svo háttar til að almennir kjarasamningar eru ekki lögvarin lágmarkslaun. Það eru þeir að vísu hér á Íslandi þannig að sem stendur erum við betur stödd en þetta er gríðarlega mikilvæg vísbending um það hvernig Evrópudómstóllinn mun túlka og þróa réttinn á næstu árum og að því getur að sjálfsögðu komið að það reyni á gildandi íslenska löggjöf að þessu leyti sem festir almenna kjarasamninga sem lágmarksviðmiðunarlaun. Er víst til frambúðar að það muni halda ef tekið er mið af niðurstöðu Evrópudómstólsins í þessu máli? Ég er ekki endilega sannfærður um það og þarna er á ferðinni mál sem við þurfum að taka mjög alvarlega.

Ég er hjartanlega sammála því og það hefur verið margrætt hér að Alþingi þarf að efla sig hvað varðar eftirfylgni og skoðun mála og það á forstigum. Ég hef nefnt það hér að mér finnist sjálfgefið að Alþingi eigi að hafa tengilið í Brussel sem heyri undir utanríkismálanefnd Alþingis svo lengi sem hún er sú nefnd sem fer með þessi mál af hálfu okkar.

Að lokum um stöðuna almennt þar sem hæstv. utanríkisráðherra kom m.a. inn á stöðu krónunnar. Nú er það svo ef marka má stjórnarsáttmálann að ekki standa til neinar breytingar í þessum efnum á kjörtímabilinu sem getur varað allt til 2011 ef svo tekst til. Engu að síður segir hæstv. utanríkisráðherra að hún líti á íslensku krónuna sem viðskiptahindrun sem ekki verði búandi við eða varla sé hægt að bjóða upp á. Þetta eru athyglisverð ummæli einnig í ljósi þess að hæstv. ráðherra segir: Ég er sammála forsætisráðherra og formanni Seðlabankastjórnar um að einhliða upptaka evru er ekki valkostur. Er þá hæstv. utanríkisráðherra að segja við okkur: Stefna ríkisstjórnarinnar er að búa við þessa viðskiptahindrun og þetta óviðunandi ástand næstu þrjú árin og það er ekki annað í boði?

Ég mundi nú í sporum hæstv. utanríkisráðherra, ef talað er fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar — sem við skulum gefa okkur — fara dálítið varlega í að útmála ástandið svona. Er nú endilega víst að það sé sanngjarnt að gera aumingja krónuna alltaf að sökudólgi og blóraböggli í þessum efnum? Hver er vandinn í grunninn? Er það krónan eða er það jafnvægisleysið í hagkerfinu? Eru það hagstjórnarmistökin undanfarin ár, er það of mikil verðbólga, of háir vextir? Svarið er já. Ef við ætlum inn í Evrópusambandið og myntbandalagið þurfum við hvort sem er að koma þessum hlutum í lag, við uppfyllum ekki skilyrðin, ekki kríteríurnar, eins og ástandið er í dag. Það er því tómt mál að tala um að við leysum þau vandamál hvort sem við tölum um viðskiptahindrun í formi krónunnar, of háa verðbólgu, of mikla þenslu eða hvað það er annað með þessu og allra síst á líðandi stund.

Að óbreyttu gæti beðið okkar sama hlutskipti og Eistlendinga, að fara inn í Evrópusambandið og síðan mundi það frestast ár eftir ár að við gætum tekið upp evru vegna þess að við uppfylltum ekki skilyrðin. Það er núna hlutskipti Eistlendinga að aftur og aftur frestast að þeir geti tekið upp evru, sem þeim er þó skylt að gera eins og nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins þegar þau uppfylla skilyrðin.

Ég held að það sé svolítið grunn umræða sem nálgast hlutina á þessum nótum. Það er auðvitað ekki þannig að öll okkar vandamál gufi upp eins og dögg fyrir sólu og eilíf hamingja og sæla bíði (Forseti hringir.) okkar með því einu að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru.