135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru fróðlega upplýsingar, að þessi afstaða og ummæli hæstv. utanríkisráðherra séu óháð ástandinu eins og það er í dag. Væntanlega er þessi grundvallarafstaða hæstv. utanríkisráðherra líka óháð stjórnarsamstarfinu, eða hvað? Annars væri þetta væntanlega ekki sett fram í ríkisstjórn sem hefur það ekki á dagskrá að breyta ástandinu. Hér er einhver fræðileg grundvallarafstaða formúleruð sem er óháð stað, tíma og aðstæðum. Þá höfum við það.

Nú má sjálfsagt segja út af fyrir sig að mismunandi gjaldmiðlar í heiminum séu viðskiptahindrun. Það væri að sumu leyti einfaldast að eiga viðskipti í heiminum ef það væri bara einn gjaldmiðill. Kannski bara förum við aftur í gullið. En það er ekki þannig. Það eru margir gjaldmiðlar, stórir og smáir. Lönd í kringum okkur sem teljast ekki stór á heimsvísu eru bara alls ekkert að ræða um að kasta sínum lögeyri fyrir róða. Þau reyna hins vegar að reka efnahagsstefnu, styrkja seðlabanka sína og standa þannig að málum að þeim vegni vel þrátt fyrir að þau séu lítil, sjálfstæð hagkerfi með sjálfstæðan lögeyri. Ég hef ekki heyrt neina umræðu, hvorki á Nýja-Sjálandi, í Noregi né annars staðar um að það standi til að henda dollaranum eða krónunni.

Það er að sjálfsögðu rétt að það er krefjandi verkefni að vera með lítinn sjálfstæðan gjaldmiðil fljótandi í alþjóðavæddum viðskiptaheimi. Það hefur kosti og það hefur galla. Það má sjálfsagt reikna út að það sé einhver fórnarkostnaður samfara því í viðskiptalegu tilliti og það kosti eitthvað í viðskiptunum. En þá skulum við ekki gleyma kostunum á móti.

Þetta er ákvörðun um hvort við ætlum að leggja af sjálfstæða hagstjórn, peningamálastefnu og gjaldmiðil sem (Forseti hringir.) getur verið breyta í hagstjórn okkar og aðlögun að mismunandi aðstæðum á hverjum tíma, eða ekki. Eigi ég að velja á milli (Forseti hringir.) atvinnuleysis eða þess að hafa krónuna með göllum hennar, þá vel ég það síðara.