135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:45]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverð ræða sem hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon flutti áðan. Það sem mér fannst sérstaklega áhugavert í henni og vil draga fram og líka fá hv. þingmann til að skýra örlítið betur er að í máli hans sem og máli hv. þingmanna og fylgismanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sýknt og heilagt að koma upp það sjónarmið að það sé ekkert mál að ganga úr EES og fara út í tvíhliða samstarf við Evrópusambandið. Þetta þykir mér afar áhugavert sjónarmið. Það er eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð geri sér ekki grein fyrir því að þessi samningur er öflugur og dýnamískur og felur í sér sameiginlegan markað með sameiginlegum ávinningi. Tvíhliða samningur er eitthvað allt annað.

Mér þykir merkilegt að heyra þau sjónarmið hjá hv. þingmanni og þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að tvíhliða samkomulag við Evrópusambandið sé einhvers konar möguleiki. Ég tel það algjöra firru í ljósi hins sterka og öfluga samstarfs með sameiginlegum ávinningi og sameiginlegum markmiðum á sviði umhverfismála innan Evrópusambandsins. Þessu eigum við að vera aðilar að.

Sömuleiðis þykir mér áhugavert, virðulegi forseti, að heyra að hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon, 14 árum eftir undirritun samningsins, virðist enn þá berjast gegn honum og enn hafa horn í síðu EES-samningsins þrátt fyrir alla þá hagsæld sem samningurinn hefur fært okkur.

Ég tel, virðulegi forseti, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð þurfi að koma hreint fram í þessu máli og tala skýrt. En frá mínum bæjardyrum séð kemur tvíhliða samningur aldrei til greina. Ég vil fá hv. þingmann til að skýra mál sitt aðeins betur.