135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:49]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri ekki betur en hv. þingmaður sé enn að daðra við þessa tvíhliða hugmynd og þyki hún jafnvel koma til greina.

Í ljósi orða hans vil ég spyrja hv. þingmann, vegna þess hvernig EES-samstarfið er að breytast og Evrópusambandið er að breytast gríðarlega og mörk á milli innri markaðarins og annarra sviða stefnumótunar innan Evrópusambandsins að verða óljósari, það gerist mjög hratt í kjölfar nýundirritaðs Lissabon-sáttmála. Ég vildi því spyrja hv. þingmann, þar sem hann virðist svo andvígur þátttöku okkar í nánu samstarfi innan Evrópusambandsins: Hvað vill hann þá gera við EES-samninginn í framtíðinni? Hvernig sér hann fyrir sér þróun samnings og þátttöku Íslands í því? Endar það, miðað við sjónarmið hans hvað varðar þetta samstarf, með að hann vilji segja samningnum upp?

Það er eðlilegt að spyrja þessarar spurningar. Breytingarnar eru hraðar og við Íslendingar þurfum að vera (Forseti hringir.) á tánum gagnvart þeim og hafa skýra skoðun á því hvernig við viljum bregðast við þeim.