135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mikill Evrópusinni. Ég er einlægur stuðningsmaður þess að við Íslendingar vinnum með nágrannaþjóðum okkar. Ég er mikill stuðningsmaður vestnorrænnar samvinnu. Það er evrópsk samvinna. Ég er mikill stuðningsmaður norrænnar samvinnu, það er evrópsk samvinna. Ég er mikill stuðningsmaður þátttöku okkar í samevrópskum stofnunum og sit reyndar í Evrópuráðinu. Það er misskilningur ef hv. þingmaður heldur að eitthvað vanti upp á áhuga minn á því að við vinnum með öðrum þjóðum. (Gripið fram í.) Spurningin er um hvernig við gerum það, hvað hentar best hagsmunum og stöðu Íslands. Hvernig búum við um samskipti okkar við aðrar þjóðir að þessu leyti?

EES-samningurinn er staðreynd. Hann var framför að ýmsu leyti frá því sem áður gilti, bókun 6 t.d. um tolla- og viðskiptakjaramál. Ég tel að í öllum aðalatriðum þjóni hann okkur vel hvað viðskiptahliðina snertir. Komi til breytinga á honum sæjum við fyrir okkur að við mundum að sjálfsögðu reyna að búa um okkar viðskiptakjör og grundvöll samvinnu okkar við önnur Evrópuríki þannig að hann yrði ekki lakari en hann er. En það mætti gjarnan einfalda stofnanaþáttinn (Forseti hringir.) og bæta úr lýðræðishallanum sem þar er til staðar.