135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt kannski að hv. þingmaður ætlaði að óska mér til hamingju með kosningasigur Die Linke og ekki bara láta nægja að staldra við SF. Ég ræði þessi mál iðulega við ágæta félaga mína þar á bæ og er alls ekki sammála þeim að öllu leyti en staða Danmerkur sem rótgróins aðildarríkis að Evrópusambandinu er talsvert önnur. Má ég þá minna á, úr því að sá flokkur er nefndur, að hann á kannski hvað stærstan þátt í því að Danir hafa mótað þátttöku í Evrópusambandinu með nokkuð sérstökum hætti. Þeir hafa náð sér í undanþágur og standa utan við samstarfið á ýmsum sviðum sem hafa verið pólitískt viðkvæm og umdeild í Danmörku og þar hefur Sósíalíski þjóðarflokkurinn leikið lykilhlutverk.

Svo kemur hv. þingmaður með tröllatölur um hinn ægilega herkostnað af því hafa krónuna og vera ekki í Evrópusambandinu og það séu skrýtnir verkalýðssinnar sem reyni að verja þessi ósköp. Hver er ávinningurinn? spyr hv. þingmaður þóttafullur.

Gæti ávinningurinn verið full atvinna, gæti það hugsast? Gæti hugsast að það væri eitthvað rétt í því sem Svíar sögðu þegar þeir felldu upptöku evrunnar, að þeir óttuðust að það að taka upp evru gæti þýtt að þeim gengi verr að tryggja fulla atvinnu og standa vörð um sænska velferðarkerfið þegar hagsveiflan í Svíþjóð yrði önnur en hún er á meginlandi Evrópu, og er þó Svíþjóð líklega talsvert nær í efnahagslegu tilliti meginlandsríkjunum en við erum?

Auðvitað er ekki hægt að fara yfir það með tæmandi hætti í örstuttu andsvari hverjir eru kostir og gallar gjaldmiðilsins, hver er fórnarkostnaðurinn á eina hlið og hverjir eru mögulegir ávinningar á hina. Það er a.m.k. skynsamlegt að ganga hægt um gleðinnar dyr og það er ekki sanngjarnt að taka ræfils krónuna og gera hana að sökudólgi fyrir háum vöxtum, verðbólgu, viðskiptahalla og klúðri í hagstjórn. En það er auðvitað það sem hv. þingmaður er að gera. Öðruvísi talaði Samfylkingin á síðasta kjörtímabili. Þá stóð ekki á því að hún væri að reyna að senda reikninginn á rétt heimilisfang, þ.e. á fyrrverandi ríkisstjórn.