135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég nenni ekki að fara í þetta í einhverjum útúrsnúningastíl. Það er að sjálfsögðu fullgilt viðfangsefni að fara yfir það hvað þessi staða kostar okkur og að hvaða marki er sanngjarnt að segja að gjaldmiðillinn og sjálfstæð peningamálastefna og hagstjórn sé íþyngjandi og kosti heimili eða skuldsett atvinnulíf. En það má ekki gleyma öllum öðrum þáttum. Það þýðir ekki bara að horfa á aðra hlið myndarinnar. Þessi uppstilling Samfylkingarinnar, að öll okkar vandamál gufi upp eins og dögg fyrir sólu, matarverðið verði miðevrópskt, vaxtakostnaðurinn sá sami og allt í himnalagi, öll vandamálin hverfi án þess að neinir gallar komi á móti, er einfeldningsleg. Mér finnst hún afskaplega yfirborðskennd, að reyna að fara svona í þessi flóknu og erfiðu mál.

Ég viðurkenni að það er líklegt að við verðum að sætta okkur við einhvern viðbótarvaxtakostnað. Það er þröskuldur í viðskiptum að færa viðskipti milli mynta og allt það. En það er hvergi nærri þessum stóru tölum sem hv. þingmaður nefnir vegna þess að þær eru fengnar með því að taka ójafnvægið í hagkerfinu eins og það er (Forseti hringir.) og færa það allt sem fórnarkostnað á krónuna. Það er ekki sanngjarnt.