135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:59]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við skýrslu um stöðu Íslands á innri markaði Evrópu. Í skýrslunni eru fyrst og fremst reifuð hin ýmsu atriði sem snerta stöðu Íslands í Evrópusamrunanum og framkvæmd þeirra samninga sem við koma þeirri stöðu sem Ísland hefur á þeim vettvangi. Að sama skapi er farið yfir einstök mál sem eru og hafa verið til meðferðar ýmist innan ESB eða innan EFTA og geta haft áhrif hér á landi.

Í skýrslunni segir að henni sé ætlað að bæta upplýsingagjöf til alþingismanna vegna þess að Evrópumál hafi ekki hlotið þá umræðu sem þjóðarhagsmunir standa til.

Það er að mínu mati ekki alls kostar rétt því að í tíð Halldórs Ásgrímssonar voru bornar fram tvær stórar og miklar skýrslur, annars vegar um landbúnað og hins vegar um fiskveiðiauðlindina, svo að því sé nú haldið til haga. Þetta eru því ekki svo mikil nýmæli eins og látið er í skína.

Í skýrslunni er ekkert tæpt á þeim stóru spurningum sem ég hefði haldið að hæstv. utanríkisráðherra mundi velta upp, þ.e. hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu, stöðu gjaldmiðilsins, mögulegri upptöku evru o.s.frv. Skýrslan er þannig líkari sendiskýrslu sendiráðs Íslands í Brussel og er ágæt sem slík. Að vísu kom hæstv. ráðherra inn á meiri pólitísk atriði í ræðu sinni en það er mjög áberandi að ekki skuli vera rætt um ofantalin atriði þegar maður les skýrsluna sjálfa yfir.

Ég vil líka minna á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna frá því í fyrravor er kveðið á um að komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafði samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.

Vera má að hæstv. utanríkisráðherra ætli sér að koma því þannig fyrir að þessar stóru spurningar verði ræddar á þeim samráðsvettvangi sem við sáum ekki bóla á fyrr en nú í dag. Nú er upplýst að búið er að skipa aðra Evrópunefnd og þar er verið að innleiða einhvern nýjan stíl. Það eru tveir formenn í nefndinni. Þetta er tvíhöfða nefnd.

Hér blasir við að einhvers konar trúnaðarbrestur er á ferðinni eða eitthvert ógnarjafnvægi sem birtist í því að það eru tveir formenn, bæði hv. þm. Illugi Gunnarsson og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson. Í síðustu Evrópunefnd dugði að hafa einn formann. Það var hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason. Nú á sem sagt að setja tvo formenn yfir nefndina, einn frá hvorum stjórnarflokki, og ég spyr bara: Er þetta nýi stíllinn sem á að innleiða hér? Hvernig verður með nefndina sem á að skipa í varnarmálum og ekki er búið að gera? Verður hún tvíhöfða líka? Hvernig er það með nefndina sem á að endurskoða kvótakerfið með tilliti til byggðarlaganna? Verður hún tvíhöfða líka? Hér blasir við trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarflokkanna sem veldur því að settir eru tveir formenn yfir verkefnið.

Í skýrslunni kemur fram að formleg aðkoma íslenskra stjórnvalda að EES-málum innan Evrópusambandsins takmarkast við fyrstu stig tillagna frá framkvæmdastjórn ESB og reynslan hefur sýnt að unnt er að hafa áhrif á þróun mála innan sambandsins á þessu stigi þegar rétt er á málum haldið og þau eru unnin nógu snemma.

Fram kemur að mikilvæg forsenda slíkrar málafylgju er að Alþingi og kjörnir fulltrúar hafi vakandi auga á málefnum innri markaðar mun fyrr í stefnumótunar- og löggjafarferlinu en hingað til hefur tíðkast. Vil ég sérstaklega taka undir að Alþingi þarf að endurskoða vinnubrögð sín til þess að betur sé unnt að taka á málum og standa betur vörð um hagsmuni Íslands á vettvangi EES.

Ég heyrði ekki betur en að hæstv. utanríkisráðherra nefndi að það kæmi til greina að skoða hér í samráði við þingið að setja upp einhvers konar Evrópunefnd á vettvangi þingsins. Það eru fordæmi fyrir því í öðrum þjóðþingum á Norðurlöndum. Alla vega er alveg ljóst að utanríkismálanefnd þarf að fara miklu betur yfir málin en hún hefur gert hingað til. Það er vilji þar til að gera svo og það hefur verið rætt á vettvangi nefndarinnar.

Varðandi ESB-aðild, sem maður taldi kannski að yrði hér aðalumræðuefnið, vil ég sérstaklega taka fram að innan allra stjórnmálaflokka eru skiptar skoðanir um Evrópumál og afstöðuna til hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB eða þess að vera áfram utan sambandsins. Þannig er það einnig í Framsóknarflokknum og það er ekkert launungarmál. Á sínum tíma voru mjög skiptar skoðanir um EES-samninginn, m.a. í Framsóknarflokknum þar sem þingmenn sáu framtíðina í mjög mismunandi ljósi. Að flestra mati gengu þær hrakspár sem menn settu fram á þeim tíma ekki eftir. Nú er breið samstaða um að EES-samningurinn hafi gefið okkur gríðarleg tækifæri og eflt framfarir á sviði félagslegra réttinda, umhverfismála, neytendamála, menntamála, rannsóknar og þróunar, nýsköpunar, svo ekki sé minnst á viðskipti.

Í dag eru jafnskiptar skoðanir um framtíðina hvað ESB varðar. Það eru kostir og gallar við ESB-aðild. Þetta er ekki einföld umræða. Rök þeirra sem hafna aðild — og ég vil leyfa mér að nota hálfgerðan stikkorðastíl vegna þess að tími minn er takmarkaður — eru þau að með aðild yrði mikil breyting á íslensku samfélagi, það yrði mikið mál, það yrði mjög stórt skref. Við mundum kalla yfir okkur yfirþjónustuvald og sjálfstæði þjóðarinnar mundi minnka. Maður heyrir rökræðuna um sjálfstæði þjóðarinnar sérstaklega hjá fólki af eldri kynslóðinni sem minnist þess þegar Ísland varð lýðveldi 1944.

Þau rök eru líka höfð í frammi að fiskveiðar séu svo mikilvægur atvinnuvegur hér að við getum alls ekki gengið í sambandið. Ég vil í því sambandi taka fram að Framsóknarflokkurinn hefur einmitt skilgreint samningsmarkmið varðandi hugsanlega inngöngu í ESB. Ef það kemur upp er alveg ljóst að að tryggja þarf forræði Íslendinga yfir auðlindinni, að hún glatist ekki og það sé skýlaus réttur Íslendinga að við hagnýtum auðlindina í efnahagslögsögu Íslands.

Þeir sem hafna aðild hafa líka áhyggjur af landbúnaðarmálum og breytingum sem geta orðið með inngöngu. Þeir hafa áhyggjur af einangrun og höftum, m.a. við gerð fríverslunarsamninga, að við mundum hafa lítil sem engin áhrif inni í þessu stóra sambandi og minni tök á inngripum vegna efnahagslegra sveiflna.

Hins vegar sjá þeir sem hlynntir eru aðild og vilja skoða nánari samruna varðandi stöðu Íslands og Evrópusambandsins, hlutina í allt öðru ljósi, sömu hlutina. Þeir telja að þetta sé lítið skref, við séum nánast orðin aðilar í Evrópusambandinu, og kalla þetta aukaaðild. Við erum aukaaðilar í dag. Við erum aðilar að innri markaðnum, við höfum fjórfrelsið og það er engin stórkostleg breyting sem felst í aðild.

Þeir sem vilja aðild segja líka að þjóðir heims séu hættar að skilgreina sig sem algjörlega einar og algjörlega sjálfstæðar. Þær eru hluti af heild og þurfa að gefa eitthvað eftir af sínum áhrifum og draga fram þau rök að við höfum gefið eftir eitthvað af okkar eigin landi, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, NATO og ýmsum alþjóðasamningum. Þeir draga líka fram að full innganga muni hugsanlega lækka vöruverð, gera viðskiptahætti hagkvæmari og að við mundum losna við veikleika krónunnar. Þeir segja líka að við mundum hafa áhrif. Í dag höfum við lítil sem engin áhrif og það væri meira sjálfstæði að fara inn og hafa þá áhrif innan frá. Þessir aðilar telja ekki að miklar breytingar yrðu gagnvart sjávarútveginum. Ég dreg þó alltaf fram að framsóknarmenn telja sjávarútveginn vera algjörlega sératriði og að standa beri vörð um sjálfstæði okkar gagnvart honum.

Öll þau viðhorf sem ég hef nefnt hér ber að virða þó að þau séu svona misjöfn. Varðandi Framsóknarflokkinn hefur komið fram hjá fulltrúum okkar — ég vil leyfa mér að vitna í sérálit fulltrúa okkar sem unnu í Evrópunefndinni árið 2007 á síðasta ári. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hvort Ísland eigi að sækja um aðild að ESB telur Framsóknarflokkurinn að þeirri spurningu verði fyrst svarað í kjölfar upplýstrar almennrar umræðu óháð flokkadráttum. Skýrsla Evrópunefndarinnar er mikilvægt skref í þá átt. Framsóknarflokkurinn telur jafnframt að langvarandi jafnvægi og varanlegur stöðugleiki í efnahagsmálum sé meginforsenda hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu. Þannig geta Íslendingar byggt ákvarðanir sínar á styrkleika og í samræmi við sinn eigin metnað og vilja sem frjáls og sjálfstæð þjóð. Framsóknarflokkurinn telur enn fremur nauðsynlegt að stjórnarskrá Íslands verði aðlöguð nýjum veruleika í Evrópu- og alþjóðasamstarfi, m.a. til þess að tryggja að þátttaka Íslands í því sé hafin yfir allan vafa í nútíð og framtíð. Þótt Framsóknarflokkurinn telji ekki ástæðu til stefnubreytinga varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu á þessum tímapunkti er ljóst að aðstæður og forsendur geta breyst, jafnvel með skömmum fyrirvara. Þannig vekur Framsóknarflokkurinn sérstaka athygli á því að hann er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem unnið hefur að skilgreiningum samningsmarkmiða fyrir Íslands hönd ef til aðildarviðræðna við Evrópusambandið kæmi. Með tilliti til hugsanlegra aðildarviðræðna í framtíðinni er mikilvægt að Íslendingar gefi sér ekki niðurstöðu fyrir fram. Fordæmin sýna að tekið er tillit til sérstöðu ríkja og samningsmarkmið Íslands mundu ávallt hafa að leiðarljósi þjóðarhagsmuni og sérstöðu landsins.

Yfirráð yfir auðlindum og nauðsynleg aðlögun. Til að tryggja framtíðarhagsmuni þjóðarinnar telur Framsóknarflokkurinn mikilvægt að áfram verði unnið að stefnumótun og markmiðasetningu Íslands í Evrópusamstarfi.“

Þetta er tekið upp úr séráliti fulltrúa Framsóknarflokksins á síðasta ári. Ég vil líka nefna hér að á árunum 2000–2001 vann nefnd í flokknum að Evrópumálum. Nefndin skilaði skýrslu þar sem við skilgreindum mikilvæg markmið á sviði fiskveiða og landbúnaðar og búvöruiðnaðar á sviði byggðamála svo eitthvað sé nefnt. Þar var líka sett fram forgangsröðun og ég vil koma henni hér á framfæri vegna þeirra umræðna sem voru áðan um mögulega tvíhliða samninga.

Niðurstaða nefndar Framsóknarflokksins var sú að númer eitt í forgangsröðinni ætti að vera að viðhalda EES-samningnum. Það væri skynsamlegast í stöðunni á þeim tíma. Ef ekki gengi upp að viðhalda EES-samningnum þá var atriði númer tvö að sækja um aðild. Númer þrjú var tvíhliða samningur. Tvíhliða samningi var því raðað neðst. Það sýnir svolítið þá umræðu sem átt hefur sér stað í Framsóknarflokknum.

Ljóst er að Evrópusambandið hefur tekið miklum breytingum á liðnum árum. Fjöldi aðildarríkja hefur tvöfaldast frá gildistöku EES-samningsins. Við þurfum því að fylgjast afar vel með þróuninni og fylgjast með því sem önnur ríki eru að gera. Við verðum að fylgjast vel með umræðu og ákvörðunum Norðmanna og hugsanlega nýjum ákvörðunum Dana og Breta um evruna. Að öðru leyti er ekkert sem þrýstir á um ákvarðanir Íslendinga núna.

Ég vil draga það fram í lokin að eðlilegt er að Íslendingar skoði nánara samstarf við Noreg. Samkvæmt nýjum skoðanakönnunum í Noregi hefur stuðningur við aðild þar ekki verið minni í manna minnum, skilst mér. Aðeins þriðji hver maður þar vill nú aðild að Evrópusambandinu en fyrir þremur árum voru fylgismenn í meiri hluta í öllum könnunum. Þannig má færa rök fyrir því að það dregur úr fylgni við Evrópusambandsaðild í Noregi.

Einnig hefur komið fram að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sem er yfirlýstur Evrópusinni, sjái ekki fram á að Evrópusambandsaðild þar í landi verði á dagskrá á næstunni. Thorbjörn Jagland, forseti norska Stórþingsins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem einnig er mikill Evrópusinni, greindi frá því að hann hefði frekar litla trú á því að norska þjóðin mundi taka upp viðræður um aðild á næstunni. Mjög fátt bendir til þess í augnablikinu að Norðmenn færi sig eitthvað nær Evrópusambandsaðild.

Af því tilefni tel ég mjög mikilvægt að Íslendingar styrki samband sitt við Noreg sérstaklega vegna þess að við þurfum að standa saman á næstu árum gagnvart því að viðhalda EES-samningnum. Það er ekkert sem bendir til þess að Ísland eða Noregur stígi eitthvert skref á næstunni varðandi inngöngu.

Ég vil að lokum segja að meginstefna Framsóknarflokksins er að byggja samskipti sín við Evrópusambandið á EES-samningnum og það er ekkert sem kallar á breytingar á þeirri afstöðu á næstu missirum. Flokkurinn hefur hins vegar aldrei útilokað aðild og telur að við eigum að vinna að samningsmarkmiðum okkar, skilgreina þau, af því ef aðstæður breytast er mjög mikilvægt að vita hvað við viljum og hvað við teljum ásættanlegt varðandi Evrópusambandsaðild.