135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[12:33]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hrökk aðeins við í miðri ræðu hæstv. ráðherra þegar hann sagði að við nýttum okkur ekki það svigrúm sem EES-samningurinn gæfi okkur til þess að hafa áhrif á löggjöf sem svo skilar sér inn á okkar svæði, ég skildi hæstv. ráðherra alla vega þannig. Ég heyrði hann ekki færa nein frekari rök fyrir þessari yfirlýsingu í ræðu sinni, það fór a.m.k. fram hjá mér. Mér finnst þetta nú ansi mikil yfirlýsing ef rétt er eftir haft, en mér heyrðist hæstv. ráðherra segja að við nýttum okkur ekki það svigrúm sem við hefðum í dag og hvað þá ef við færum inn í Evrópusambandið.

Nú er alveg ljóst að utanríkisráðuneytið fer með þessi mál og á að hafa yfirumsjón með því að menn nýti sín tækifæri. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti aðeins skilgreint þetta betur fyrir okkur. Á síðustu árum hafa tveir sjálfstæðismenn verið utanríkisráðherrar, núverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og Davíð Oddsson, tveir framsóknarmenn, Halldór Ásgrímsson og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, og nú er hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hvað var hæstv. dómsmálaráðherra að fara með því að segja að við nýttum okkur ekki það svigrúm sem við hefðum?