135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[12:35]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði haldið að hv. þingmaður, áhugamaður um Evrópumálin, hefði lesið skýrslu Evrópunefndarinnar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins og þær tillögur sem nefndin gerir. Kjarninn í þeim tillögum nefndarinnar og allri umfjöllun var sá að í ljós kom, eftir fundi sem við héldum með hátt í 100 manns, að Íslendingar notfærðu sér ekki þau tækifæri sem þeir hefðu til áhrifa m.a. á löggjöf Evrópusambandsins. Við hefðum miklu fleiri tækifæri og miklu betri tækifæri en menn hefðu kannski gert sér grein fyrir til þess að hafa þar áhrif.

Ég nefndi til sögunnar, og í skýrslunni sem hæstv. utanríkisráðherra kynnir hér er það nefnt sérstaklega, stefnumörkunina um hafið og hægt er að benda á fleiri dæmi og það er gert í skýrslu nefndarinnar sem var sameiginleg niðurstaða þingmanna úr öllum flokkum. Í því felst engin gagnrýni og það er allt of þröngsýnt sjónarmið hjá hv. þingmanni að fara að nefna einhverja utanríkisráðherra til sögunnar, málið snýst ekki um það. Málið snýst um hina almennu hagsmunagæslu okkar og þau tækifæri sem við höfum. Nefndin leggur til, og það kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra, að við nýtum þessi tækifæri betur. Alþingis bíður að nýta þessi tækifæri miklu betur með því að fara í samstarf við þingflokka á Evrópuþinginu og láta að sér kveða á hinum pólitíska vettvangi. Þau tækifæri höfum við til dæmis ekki nýtt.