135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[12:38]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það komi fram í skýrslu utanríkisráðherra, sem við ræðum hér í dag, að utanríkisráðuneytið er að leggja á ráðin um það hvernig þetta verði best gert. Ég tel að margir hlutir komi þar til greina sem ekki er varpað ljósi á í þeirri skýrslu en eru nefndir í skýrslu Evrópunefndarinnar, og nefndin gerði sér grein fyrir því að þetta kostaði fé.

Við segjum t.d. hér varðandi ríkisstjórnina í 1. tölulið, með leyfi forseta:

„Á vettvangi Stjórnarráðsins er nauðsynlegt að samhæfa á öflugan hátt frumkvæði, hagsmunagæslu og eftirfylgni við framkvæmd EES-samningsins. Tryggð verði á einum stað í Stjórnarráðinu sýn yfir þróun samskiptanna við ESB og samræmd samvinna við einstök ráðuneyti við úrlausn mála.“

Þetta leggjum við til að verði og það var líka rætt í nefndinni að æskilegt væri að hafa sjóði til þess að geta gengið í ef á þyrfti að halda og auka þátttöku á einu sviði vegna umræðna um þau mál á vettvangi Evrópusambandsins. Liður í því að þetta nái fram að ganga eru umræðurnar hér í dag. Aldrei hafa farið fram sambærilegar umræður hér í þinginu eins og þær sem stofnað er til í dag að frumkvæði utanríkisráðherra með þessari skýrslu í anda þeirrar skýrslu sem Evrópunefndin vann. Því miður gafst ekki tækifæri til þess á síðasta þingi þegar skýrslan var tilbúin að ræða málið hér. Ef það hefði verið gert værum við kannski komin feti framar í þessu. Ég vona að umræðan hér leiði til þess að fjárveitingavaldið, sem er í höndum Alþingis, öðlist skilning á nauðsyn þess að auka fjárstyrk í þessu efni.