135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[13:44]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka greinargóð svör, sem reyndar skilja mig eftir í svipuðu tómarúmi og ég var í áður varðandi þetta atriði. Athyglisverðast í þessari umræðu eru auðvitað fullyrðingar hv. þingmanns um að hér þurfi að fara fram fordómalaus og opin umræða, ég get heils hugar tekið undir að það þarf að gerast. Það þarf að vera opin og fordómalaus umræða um Evrópumál og sjálfur hef ég haft töluvert mikinn áhuga á þeim málum og skrifað meira um þau mál í blöð en margir aðrir hv. þingmenn. En ég get ekki séð að við séum á leið inn á opna og fordómalausa umræðu þegar málflutningur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er afgreiddur hér með einu orði sem fortíðarfar og málflutningur minn er afgreiddur með þeim orðum að ég standi í vegi fyrir framþróun í alþjóðasamstarfi.

Þetta er ekki mjög fordómalaus umræða. Þetta er umræða sem einkennist af þeim fordómum og þeirri einsýni sem málflutningur hv. þm. Árna Páls Árnasonar einkennist af þegar hann talar um Evrópuaðild sem hina einu lausn okkar í alþjóðamálum og allir sem ekki vilja ganga þar inn eru einangrunarsinnar, og væri hollt fyrir viðkomandi þingmenn að gera sér grein fyrir því að alveg frá því um 1500 hefur heimsbyggðin vitað að heimurinn er stærri en bara Evrópa.