135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[13:58]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna sem hér er lögð fyrir Alþingi. Eins og fram kemur í inngangi skýrslunnar er með henni ætlað að bæta upplýsingagjöf til alþingismanna og skerpa sýn á forsendur, stefnumið og tilgang Evrópulöggjafarinnar. Það er enginn vafi að skýrslan gagnast vel í þeim tilgangi enda hefur greinilega verið vel til hennar vandað. Hún geymir afar mikilvægt yfirlit yfir stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu og þróun Evrópusambandsins, m.a. í tengslum við stækkun þess. Auk þess er farið yfir stöðuna í þeim málaflokkum þar sem Ísland á hvað mestra hagsmuna að gæta.

Ég vil meina að þessi skýrsla ásamt skýrslu Evrópunefndarinnar frá því í fyrra geti verið okkur alþingismönnunum eins konar handbækur um Evrópumál, að minnsta kosti næsta árið. Í þessum tveimur skýrslum er að finna afar haldgott yfirlit yfir allt það sem helstu máli skiptir til þess að glöggva sig á þeim álitaefnum sem við stöndum frammi fyrir í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég vil leggja áherslu á það í þessari umræðu um Evrópumálin að þingið taki sér miklu öflugri stöðu en það hefur gert hingað til. Ég hygg að umræðan eins og hún hefur farið fram í dag mótist m.a. af því að við erum að fara í gegnum Evrópuumræðuna í fyrsta sinn á Alþingi. Ef allt væri með felldu, eins og best væri á kosið, hefði þingið stanslaust verið upplýst allt síðastliðið ár um þau mál sem er að finna í þessari skýrslu. Sú staðreynd hefði getað orðið grundvöllur að miklu dýpri umræðu um þau einstöku málefni sem snerta okkar sérstöku íslensku hagsmuni.

Þannig verður það vonandi á næsta ári, að þingið getur á grundvelli stöðugs samráðs sem á sér stað allt árið tekið miklu dýpri og málefnalegri umræðu um þau álitaefni sem við stöndum frammi fyrir við framkvæmd samningsins. Þannig vonast ég til þess að málin þróist í framtíðinni.

Það er löngu tímabært, eins og fram hefur komið í umræðunni í dag, að Evrópuumræðan verði tekin á Alþingi. Í raun sætir furðu að þingið hafi sætt sig við að vera nánast afskipt í Evrópuumræðunni og látið viðgangast í öll þessi ár að samráðinu sem mælt er fyrir um í reglum forsætisnefndar hafi ekki verið sinnt. Ég hef sem formaður utanríkismálanefndar vakið athygli á þessu áður. Eins og sjá má af reglum forsætisnefndar eru þar tiltölulega einfaldar og skýrar reglur um samskipti framkvæmdarvalds og þings í þessum málaflokki. Hið alvarlega við skortinn á samráði í þessu samhengi er að við erum að tala um mál á mótunarstigi, mál sem enn er hægt að koma einhverjum athugasemdum að og hafa áhrif á.

Í viðauka II við skýrslu utanríkisráðherra er að finna yfirlit yfir þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem enn bíða staðfestingar Íslands með því að Alþingi aflétti hinum stjórnskipulega fyrirvara. Það má segja að það yfirlit sé um leið yfirlit yfir öll þau mál sem Alþingi hefur ekki verið haft með í ráðum en búið er að taka ákvörðun um. Það kom fram í máli hv. þm. Árna Sigurðssonar í fyrri ræðu að við stöndum frammi fyrir gerðum hlut í þeim málum. Þetta er ágætisyfirlit fyrir þingmenn um mál sem hefði átt að vera haft samráð við þingið um á síðasta ári og jafnvel fyrr en ekki var gert. Mál sem farið hafa gegnum ákvörðunartökuferlið.

Við getum, eins og fram hefur komið í umræðunni í dag, ýmislegt lært af nágrönnum okkar sem eru í sambærilegri stöðu og við. Ég veit að þingmenn vilja breyta þessu fyrirkomulagi. En til fróðleiks finnst mér ástæða til að fara aðeins yfir það hvernig hlutirnir gerast þar. Samkvæmt minnisblaði sem alþjóðadeild nefndasviðs Alþingis vann á síðasta ári segir, og ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr minnisblaðinu, með leyfi forseta:

„Þegar utanríkisráðherra gengur á fund EES-nefndar Stórþingsins kynnir hann þau mál og tillögur sem liggja fyrir næsta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Að lokinni umræðu veitir EES-nefndin ríkisstjórninni leiðsögn um hvaða afstöðu hún eigi að taka í sameiginlegu EES-nefndinni. Það er ríkisstjórnarinnar að túlka leiðsögn nefndarinnar. Þegar þurfa þykir taka aðrir fagráðherrar en utanríkisráðherra þátt í fundum EES-nefndarinnar. Í þeim tilvikum sitja jafnframt þingnefndir á viðkomandi fagsviði fundina.“

Mál eru borin undir EES-nefnd norska Stórþingsins til umfjöllunar og það á að taka um þau ákvörðun. Þetta er hið sama og segir í reglum forsætisnefndar Alþingis. Það á að taka ákvörðun í þingnefndinni áður en farið er með málið lengra. Ég ætla ekki að eyða öllum tíma mínum í að fara yfir þetta en ég legg áherslu á að þingið verði ekki einungis þiggjandi í þeirri þróun sem þarf að eiga sér stað varðandi þátttöku þingsins, taki við hugmyndum frá framkvæmdarvaldinu um hvernig málin eigi að gerast, heldur taki eigið frumkvæði. Ég hef átt fund með forseta Alþingis og forsætisnefndinni allri og vakið athygli á mikilvægi þess að þingið taki málið á sínar eigin herðar enda ber það auðvitað ábyrgð á því og er sinnar eigin gæfu smiður í þessu. Það má ekki bíða lengur með að þingið taki frumkvæðið í því.

Við getum horft á lítið dæmi eins og það að þessi skýrsla er flutt að frumkvæði utanríkisráðherra. Ég fagna því. En hjá vinum okkar Norðmönnum gerðist það á hinn veginn, að utanríkismálanefnd þingsins, EES-nefndin, sem er utanríkisnefndin með EFTA-nefndinni þeirra, flutti þingsályktunartillögu um að utanríkisráðherrann ætti að koma með skýrsluna. Það gerðist fyrir frumkvæði þingsins. Við þurfum að fara að hugsa á þessum nótum á Alþingi.

Ég ætla ekki að eyða öllum mínum tíma í að fjalla um mikilvægi þess að við höfum samráð. Þetta er augljóst í ljósi þróunarinnar stað í Evrópusambandinu, ekki síst eftir Lissabon-sáttmálann. Þær stofnanir sem við höfum minni aðgang að auka við vald sitt innan Evrópu og þeim mun mikilvægara verður fyrir Alþingi að rækja sitt hlutverk almennilega. Það kemur líka við samband þingsins við hin þjóðþingin sem einnig fá umsagnarrétt í löggjafarferlinu. Af þeirri ástæðu er mikilvægt að Alþingi ræki sitt hlutverk við önnur þjóðþing í Evrópusambandinu.

Ég er þeirrar skoðunar að fulltrúi Alþingis eigi að hafa aðstöðu á Evrópuþinginu til að fylgjast með þróun mála og það fyrirkomulag væri heppilegra en að aðstöðunni væri komið fyrir í sendiráðinu í Brussel eins og fjallað var um í skýrslu Evrópunefndarinnar frá því í fyrra. Mínar heimildir eru þær að slík aðstaða standi okkur til boða. Það stæði Alþingi til boða ef eftir því væri leitað í Evrópuþinginu.

Varðandi samskipti við íslensku þingflokkanna við systurflokka sína á Evrópuþinginu þá tel ég, m.a. eftir að hafa farið sem gestur á þingflokksfund flokkahópa í Evrópuþinginu, að það sé algjörlega nauðsynlegt að koma slíku samstarfi á hið fyrsta.

Umræðan í dag ber þess vitni að við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að nýta okkur betur þau tækifæri sem við höfum til að hafa áhrif á og móta mál sem síðar hafa áhrif á löggjafarstarf á Alþingi. En skýrsla utanríkisráðherra er líka til vitnis um að þegar við beitum okkur til áhrifa þá getum við náð miklum árangri. Það höfum við gert með markvissum vinnubrögðum á ákveðnum sviðum. Besta dæmið í skýrslu utanríkisráðherra er augljóslega aðkoma Íslands að stefnumótun um málefni siglinga og sjávar. Ég tek undir það sjónarmið að reynslan af stefnumótun á því sviði getur verið fyrirmynd að því hvernig Ísland geti haft áhrif á öðrum sviðum í framtíðinni, eins og segir í skýrslunni. Einstaka Evrópuþingmenn hafa einnig haft á orði við mig hve mikilvægt framlag Íslands var í þeirri vinnu.

Viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda er annað dæmi um málaflokk þar sem miklu skiptir að við gætum hagsmuna okkar í hvívetna. Eins og rakið er í skýrslunni eru hagsmunir okkar miklir á því sviði en málið snýst m.a. um að tekið verði tillit til sérstöðu okkar sem eylands á jaðri Evrópu.

Hér er stórt mál undir og takmarkaður tími til að reifa málin. Mér finnst hafa verið komið býsna víða við í dag en samt hefur umræðan ekki verið sérstaklega djúp. Það kemur mér dálítið á óvart að af hálfu stjórnarliða skuli daðrað við það sem eina möguleikann að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það mál sem er hér undir í dag snýst að mínu áliti fyrst og fremst um að þingið átti sig á því að það verður að fullnýta þá möguleika sem okkur standa til boða til að hafa meiri áhrif og þingið verður sjálft að axla ábyrgð á því (Forseti hringir.) að taka sér það vald sem það hefur í því sambandi. Það kemur enginn annar og færir okkur það óumbeðið.