135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:10]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara þessu svo að ég geri kröfur til þess að þær reglur sem eru í gildi og hafa ekki verið afnumdar, reglur forsætisnefndar frá 1994, verði einfaldlega virtar. Mér finnst það ekki til of mikils ætlast. Mér finnst ekki til mikils ætlast að þær ákvarðanir sem rata inn á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar séu bornar undir utanríkismálanefnd sem síðan fari með þær áfram til þingmannanefndar landsdeildar Íslands í EFTA og fundi sameiginlega með þeirri nefnd, einu sinni í mánuði eins og reglurnar gera ráð fyrir. Það finnast mér eðlileg vinnubrögð.

Í millitíðinni, þar til við höfum skoðað eitthvað nánar hvernig við viljum haga þessu til framtíðar, finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að gildandi reglur verði grundvöllurinn að starfi á þinginu. Ég hef, eins og ég gat um í mínu fyrri ræðu fundað með forsætisnefndinni, m.a. um þetta mál. Ég skynjaði mikinn áhuga allra í forsætisnefndinni á að vinna áfram með tillögur Evrópunefndarinnar. Ég treysti því að það mál sé í farvegi.

Mér finnst margt koma til greina varðandi það hvernig við munum meðhöndla þessi mál. Mér finnst t.d. koma til greina að skýrslan sem við erum að ræða í dag sé til að mynda fyrst kynnt fyrir utanríkismálanefnd sem við muni jafnvel álykta um málið í framhaldinu og sú ályktun ásamt skýrslunni verði grundvöllur að umræðu í þinginu. Það fyndist mér vera til fyrirmyndar. Þannig gætum við haldið því fram að þingið veitti framkvæmdarvaldinu aðhald í því hvernig samningurinn er framkvæmdur. Mér finnst tæplega hægt að halda því fram að með umræðunni sem fram fer í dag veiti þingið framkvæmdarvaldinu mikið aðhald við framkvæmd EES-samningsins.

Það á sérstaklega við núna, í þetta fyrsta sinn. Samráð hefur ekki verið viðhaft vegna mála á mótunarstigi og þingið hefur ekki lagt sig sérstaklega eftir því að setja sig inn í mál sem eru til meðferðar hjá embættismönnum í kerfinu. (Forseti hringir.)