135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:12]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi fyrir mig að ég er sammála þingmanninum um hvernig eigi að standa að þessum málum. Ég hvet hann eindregið til að fylgja þessu fast eftir og heiti stuðningi við það og a.m.k. úr þeim þingflokki sem ég sit í að þessum málum verði komið í þann farveg sem þingmaðurinn lýsir. En væntanlega þarf meira til.

Ég held að mikilvægt sé að vinda bráðan bug að því að koma þessu í þann farveg að þingið fái málið til umfjöllunar á fyrstu stigum, annaðhvort utanríkismálanefnd, einhvers konar útvíkkuð utanríkismálanefnd eða sameinaður vettvangur utanríkismálanefndar og þingmannanefndar EFTA, sem fjallar að sjálfsögðu líka um þessi mál á sínum fundum. Við þekkjum báðir, hv. þm. Bjarni Benediktsson og ég, að við fjöllum þar um mál og lesum kannski um það þegar við komum heim af fundum að ráðherranefndin hafi verið að ákveða eitthvað sem við ekki vissum um þótt við kæmum af fundum þar sem EFTA-mál eru til umfjöllunar.

Varðandi framhaldið hlýt ég að vekja athygli á því að í þessari skýrslu er vakið máls á mörgum málum sem eru í vinnslu á frumstigi. Þá er spurningin: Er ekki rétt að byrja núna og taka þau efnisatriði sem hér er vakið máls á og eru í vinnslu, jafnvel á fyrstu stigum, og koma þeim til umfjöllunar í utanríkismálanefnd, í fagnefndum, þannig að þær fái kynningu svo við stöndum ekki að ári í sömu sporum, hafandi ekki fengið þá kynningu eða þá umræðu sem er sjálfsögð?