135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:14]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sem hv. þingmaður nefnir, að hægt eigi að vera að vinna áfram með ýmis þau málefni sem tekin eru til umfjöllunar í skýrslu utanríkisráðherra í utanríkismálanefnd, sé hárrétt. Ég held að það sé tilefni til þess fyrir utanríkismálanefndina að taka þau mál til skoðunar. Við höfum svo sem tekið ákveðin mál, t.d. þau sem snúa að loftslagsmálunum og reynt að hafa þau til sérstakrar skoðunar.

Almennt er ég þeirrar skoðunar að margt af því sem er fjallað um í þessari skýrslu og reyndar í skýrslu Evrópunefndarinnar frá því í fyrra, ætti að vera grunnurinn að einhvers konar handbók þingsins í Evrópumálum. Þarna er að stórum hluta fjallað almennt um hvernig samstarfið fer fram. Ljósi er varpað á hvernig stofnanakerfið virkar, hvernig samskipti okkar eru og hvaða möguleika við höfum til að hafa áhrif. Þetta ætti í sjálfu sér að vera í venjulegri handbók þingsins, hin almenna umfjöllun, og skýrslan sjálf að fjalla um efnisatriðin, það sem gerst hefur á liðnu ári.

En ég fagna því að þessu sé stillt svona fram. Ég tel fulla þörf á því og held að ástæðan sé sú, sem við höfum rakið í dag í fjölmörgum ræðum, að Evrópumálin hafa ekki verið nógu mikið á dagskrá í þinginu. Það má vera að þingmenn þurfi að setja sig betur inn í gangverkið í Evrópusambandinu en gert hefur verið hingað til.

Ég vil að lokum ítreka að öllu þessu þarf að fylgja eftir með fjármagni til þingsins til að sinna samstarfinu. Það á bæði við um fjármagn til þingflokka og eins líka til nefndarinnar sem fer með málaflokkinn. Utanríkisnefnd hefur fengið boð um að fara til Noregs og setja sig inn í þessi mál og við höfum unnið að því að reyna að láta verða af þeirri ferð á þessu ári þar sem við munum (Forseti hringir.) ræða um Evrópumálin og samskipti þeirra vegna framkvæmdar EES-samningsins. En ég sé fyrir mér að við getum líka rætt heilmikið við þá um þróunarmál.