135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:27]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir fagna þeirri umræðu sem hér fer fram í dag um Evrópumálefni. Sá stakkur sem okkur hefur hingað til verið skorinn í þeim efnum að ræða þennan mikilvæga málaflokk á Alþingi hefur verið býsna þröngur. Þess vegna er ástæða til að fagna því að við fáum núna rýmra tækifæri til að fara yfir þessi mál með ítarlegri hætti og ég held að það sé sérstakt fagnaðarefni að hæstv. utanríkisráðherra hefur haft frumkvæði að því að efna til slíkrar umræðu.

Sumir segja ef til vill að það sé að bera í bakkafullan lækinn að ræða Evrópumál svo mjög sem þau hafi verið á dagskrá árum saman. Sumum finnst að það sé kannski meira framboð af umræðu um þessi mál en eftirspurnin er meðal almennings en það breytir ekki því að þetta er afar mikilvægur málaflokkur og gríðarlega þýðingarmikið að við áttum okkur á eðli hans. Það er alveg rétt sem fram kemur í þessari skýrslu að regluverk innri markaðarins hefur mjög víðtæk áhrif hér á landi og þess vegna skiptir það miklu máli fyrir okkur í fyrsta lagi að átta okkur á umfanginu og í öðru lagi að gera okkur grein fyrir því sem mér fannst vera einn kjarninn í máli hæstv. ráðherra og það er að vekja athygli á þeim möguleikum sem við höfum með aðkomu okkar að mótun þeirra reglugerða og laga sem við búum síðan við eða munu hafa óbein áhrif á okkur eins og gildir á mörgum sviðum.

Ég held að það sé algjörlega rétt sem hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan að það hefur ríkt mikið vanmat á möguleikum okkar til að hafa áhrif á niðurstöðu á EES-vettvangnum. Við höfum mjög margar aðkomuleiðir í þeim efnum og hægt væri að fara rækilega yfir það og ég held að í umræðunni hafi menn alls ekki gert sér grein fyrir öllum þeim möguleikum sem þar eru uppi. Þetta er líka mjög í samræmi við niðurstöður Evrópustefnunefndarinnar sem forsætisráðherra skipaði á sínum tíma, og skipuð var fulltrúum allra stjórnmálaflokka, þar sem lögð var mikil áhersla á að reyna að skerpa þessar aðkomuleiðir, gera mönnum grein fyrir því hvaða möguleikar væru til staðar og hvernig bæði þingið og framkvæmdarvaldið gætu haft áhrif í þessum efnum.

Í tillögum nefndarinnar er það tíundað í allmörgum liðum hvernig við getum haft frekari áhrif en við gerum þrátt fyrir allt í dag. Það er bæði vakin athygli á því sem ríkisstjórnin getur gert, hvernig Alþingi getur komið að þessum málum, hvernig hægt er að treysta tengsl embættismanna, hvernig hægt er að leggja áherslu á samstarf innan EFTA, hvernig við getum gert þetta með aukinni almennri upplýsingagjöf fyrir almenning og hagsmunasamtök, sem ég held að skipti ekki síst máli í þessum efnum. Það er hægt að þróa frekar samstarf hagsmunaaðila, það hefur í rauninni verið að þróast á undanförnum árum, við sjáum að sveitarfélögin, atvinnulífið og verkalýðshreyfingin hafa öll verið að leggja áherslu á þetta og þannig mætti áfram telja. Ég er þess vegna alveg sammála því sem hæstv. utanríkisráðherra lagði áherslu á að þarna eru miklir möguleikar, vannýttir möguleikar sem við eigum auðvitað að fylgja eftir.

Við sjáum það þegar við skoðum þetta að möguleikar okkar til að taka þátt á ýmsum sviðum stofnana innan EES-svæðisins og á vettvangi ESB eru heilmiklir. Ef við skoðum, eins og fram kemur í skýrslu Evrópustefnunefndar, fjölda þeirra nefnda ESB sem EES- og EFTA-ríkin hafa aðgang þá voru þær 418 talsins á árinu 2005 en við tókum einungis þátt í 184 þeirra. Vitaskuld skýrist þetta af því að ýmsir málaflokkanna sem þær nefndir sem hér um ræðir fjalla um eru kannski þess eðlis að þeir hafa ekki beinlínis þau áhrif hér á landi að við teljum ástæðu til að sinna því öllu, en að mínu mati er engu að síður ástæða til að horfa til þess að þarna eru heilmiklir möguleikar sem við eigum vitaskuld að sinna. Líka vegna þess, eins og glögglega kom líka fram í máli hæstv. ráðherra, að það er ósk um það innan Evrópusambandsins að við komum einmitt að ýmsum þessara málaflokka. Fjölmörg dæmi eru um að Evrópusambandið hafi sóst eftir sérþekkingu okkar á þessum sviðum og kannski er gleggsta dæmið um það, a.m.k. það sem við þekkjum nýlega, aðkoma okkar að mótun þeirrar stefnumótunar sem kölluð hefur verið Towards a future Marine Policy for the Union. Þar kom auðvitað glögglega fram að við höfðum heilmikil áhrif á stefnumótunina, á vinnuna, vegna yfirburðasérþekkingar okkar á þessu sviði og þannig gætum við áfram talið. Það fer ekkert á milli mála að af hálfu Evrópusambandsins er áhugi á slíku samstarfi.

Sjálfur hef ég átt þetta samstarf á þeim vettvangi þar sem ég hef starfað, fyrst í samstarfi við Joe Borg, þann sem fer með sjávarútvegsmál innan Evrópusambandsins. Nýlega átti ég sömuleiðis fund með Mariann Fischer Boel, sem sér um landbúnaðarmál á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og fram kom m.a. í máli hennar að hún hefði mjög mikinn áhuga á því að rækta gott samstarf við okkur Íslendinga á sviði landbúnaðarmála og hafði sérstakan áhuga á því að kynna sér þau mál hér á landi.

Það hefur líka komið fram, og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að af hálfu Evrópusambandsins sé áhugi á því að sérfræðingar á okkar vegum kæmu frekar til starfa á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ég held að það sé líka hlutur sem við eigum að skoða af mjög mikilli alvöru. Norðmenn, sem eru þátttakendur með okkur í EES-samstarfinu, hafa verið að nýta þetta mjög mikið. Tugir manna á vegum Norðmanna starfa einmitt innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins en af okkar hálfu held ég að sé einungis einn starfandi, ef ég fer rétt með. Það hefur m.a. verið rætt á vettvangi sjávarútvegsráðuneytisins hvort ekki væri skynsamlegt að við sendum fulltrúa til starfa á þeim vettvangi innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ég tel að það komi mjög vel til álita. Þó að EES-samningurinn nái ekki beinlínis til sjávarútvegssviðsins skiptir það mjög miklu máli fyrir okkur, bæði að miðla okkar sérfræðilegu þekkingu og geta síðan miðlað þeim upplýsingum og því sem er að gerast á þessum vettvangi hingað heim. Þetta er líka liður í því að styrkja utanríkisþjónustu okkar og styrkja þá þekkingaröflun sem þarf að eiga sér stað á þessu sviði.

Vitaskuld má segja sem svo að smæð okkar hafi áhrif á það í hverju við getum tekið þátt, það er alveg hárrétt og engin ástæða til að gera lítið úr því, en engu að síður getum við tekið einhverja strategíska stefnu um það hvar við viljum sérstaklega helga okkur völlinn og hvar við viljum sérstaklega sinna þessum þáttum. Ýmislegt af því sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins hefur óbein áhrif á það sem við erum að gera. Fram undan eru og hafa staðið yfir viðræður á vettvangi WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem munu, ef þær fá einhvern tíma endi, leiða til verulegra breytinga á rekstrarumhverfi atvinnugreina t.d. á borð við landbúnaðinn. Á fundinum sem ég vísaði til áðan kom glögglega fram t.d. að á vegum Evrópusambandsins fer nú þegar fram mikil vinna við að breyta eðli landbúnaðarstefnu þess til að bregðast við því sem mönnum sýnist að verði þróunin á þessum alþjóðlega vettvangi. Menn gera sér grein fyrir að þessar umræður og viðræður hafa staðið yfir lengi, þær stefna auðvitað í eina átt þó að niðurstaðan sé ekki fengin og þær þjóðir sem taka þetta mál alvarlega, eins og t.d. þjóðir Evrópusambandsins og Svisslendingar sem eins og við eru að styrkja landbúnað sinn mjög mikið, horfa til þeirrar breyttu heimsmyndar sem þarna verður.

Við erum líka smám saman að taka upp regluverk sem á sér rót í Evrópusambandinu. Við munum innan tíðar taka yfir matvælalöggjöf Evrópusambandsins, síðar í vetur verður lagt fram frumvarp þar sem byggt er á þessari matvælalöggjöf sem mun breyta mjög miklu í rekstrarumhverfinu. Sjávarútvegurinn hefur að vísu tekið þetta yfir fyrir alllöngu síðan en landbúnaðurinn hefur ekki gert það. Þetta mun auðvitað hafa í för með sér heilmikla breytingu á þessu umhverfi.

Við höfum sjálf, Íslendingar, verið að gera samninga við Evrópusambandið um innflutning á tilteknum landbúnaðarvörum. Við höfum tollheimildir, eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti, varðandi útflutning á landbúnaðarvörum okkar inn á Evrópumarkaðinn og höfum síðan samþykkt líka innflutning evrópskra landbúnaðarvara til okkar. Þessar viðræður eru stöðugt í gangi og þær munu þróast. Tekið hefur verið upp ákveðið fyrirkomulag í þessum efnum, við höfum boðið út tollkvótana, ég breytti fyrirkomulaginu í haust sem leiddi að mínu mati til heilbrigðari viðskiptahátta og leiddi síðan til þess að tollkvótarnir lækkuðu sem hafði þau áhrif sem að var stefnt. Þessi mál eru hins vegar í nokkurri mótun og það mun gefast tækifæri til að ræða þau miklu ítarlegar á Alþingi þegar það frumvarp kemur fram. Það breytir í sjálfu sér engu um afstöðu okkar varðandi tollverndina, það er hlutur sem taka þarf aðra pólitíska umræðu um, en þær breytingar sem verða óhjákvæmilega í kringum (Forseti hringir.) það að við tökum yfir matvælalöggjöfina munu engu að síður hafa áhrif.