135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:44]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að hæstv. utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu Íslands og innri markaði Evrópu og samskipti við Evrópusambandið byggða á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.

Ég get ekki látið hjá líða, í upphafi máls míns, að blanda mér í þá umræðu sem hefur hér orðið um vinnubrögð. Nokkrir hv. þingmenn hafa kallað eftir dýpri og pólitískari umræðu. En til þess er leikurinn gerður. Hið háa Alþingi og nefndir þess hafa það fyllilega í sínu valdi að stjórna vinnubrögðum innan nefnda og í samskiptum við ráðuneyti.

Ég sat lungann úr tveimur kjörtímabilum í utanríkismálanefnd. Þann tíma höfðu menn engan áhuga á að breyta vinnubrögðum í þessum efnum. Ég tek undir að full ástæða er til að gera það og sjá til þess að í vinnubrögðum löggjafans sé þátttaka hv. alþingismanna tryggð eins snemma í hinu pólitíska ákvarðanaferli og tök eru á. Þetta þarf auðvitað að gerast í samstarfi við utanríkisráðuneytið og ekki síður í samstarfi við þau fagráðuneyti, önnur ráðuneyti sem sýsla með innleiðingu gerðanna sem byggja á EES-samningnum. Þar á ég ekki síst við ráðuneyti umhverfismála. Stór hluti þeirra gerða sem komnar eru í íslenska löggjöf eru á sviði umhverfismála eða tengjast viðfangsefnum umhverfisráðuneytisins.

Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um kröfur um að umhverfisvernd skuli jafnframt vera þáttur í stefnu samningsaðila á öðrum sviðum. Hér er á ferðinni meginregla um samþættingu umhverfissjónarmiða sem er afar þýðingarmikil og ein helsta forsenda sjálfbærrar þróunar. Í skýrslu utanríkisráðherra kemur fram, að Ísland sé í raun aðili að sameiginlegri stefnu ESB á sviði umhverfismála, á öðrum sviðum umhverfismála en náttúruverndar.

Verulegur hluti umhverfislöggjafar ESB hefur verið tekinn upp í íslenska löggjöf á undanförnum árum. Það er mat mitt að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi haft jákvæð áhrif á þróun lagaumhverfis hér á landi og styrkt stöðu umhverfisverndar í íslenskri löggjöf. Nægir að nefna að fjölmargar reglugerðir um mengunarvarnir, úrgangsmál, vatnsvernd og mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda.

Eins og ráða má af framansögðu skiptir miklu máli að íslensk stjórnvöld taki sem virkastan þátt í mótun löggjafar, jafnt á sviði umhverfismála sem og annarra mála, ekki síst á þeim vettvangi þar sem Ísland á verulegra hagsmuna að gæta. Þar nefni ég málefni hafsins en þegar hefur verið samþykkt stefnuskrá um málefni hafsins, um málefni sjávar og siglinga held ég að rétta þýðingin sé á vegum Evrópusambandsins. Ég átti þess kost að sækja leiðtogafund um þessi málefni í Lissabon síðastliðið haust fyrir hönd stjórnvalda. Ætlunin er að vinna áfram að því verkefni og mun Ísland taka virkan þátt í því. Hafa ber í huga að hafsvæði sem falla undir lögsögu Íslands og Noregs teljast til Evrópu. Þau eru gríðarlega stór og eftirsóknarverð og því ákaflega mikilvægt að standa vörð um þá hagsmuni sem í þeim eru fólgnir.

Annað mál vil ég nefna en það eru viðskipti með gróðurhúsalofttegundir eða losunarheimildir. Sem stendur er til afgreiðslu hjá Evrópuþinginu og ráðherraráðinu breyting á tilskipun um viðskipti með losunarheimildir, breyting nr. 2003/87/EB. En grunntilskipunin hefur nú þegar verið tekin upp í EES-samninginn. Þessi tiltekna breyting varðar viðskipti með losun frá flugi. Þótt málið sé ekki afgreitt er nokkuð ljóst að nái þær tillögur fram að ganga sem nú eru til umræðu munu þær hafa töluverð áhrif á almennar samgöngur til og frá Íslandi, meiri áhrif en í ESB-löndunum, þar sem flug er í reynd eini mátinn fyrir íslenskan almenning til að ferðast til og frá landinu.

Hér er eitt dæmi um hvernig íslensk stjórnvöld þurfa að standa vaktina og vera vel á verði, taka þátt í undirbúningi mála strax frá upphafi, meðan málið er til meðferðar hjá framkvæmdastjórninni og þegar málið er komið til þingsins. Þegar ráðherraráðið er komið með málið í hendurnar er erfiðara um vik.

Hinn 23. þessa mánaðar lagði framkvæmdastjórn ESB fram fyrir Evrópuþingið tillögur að endurskoðaðri tilskipun um verslun með losunarheimildir sem stefnt er að því að gildi frá árinu 2013. Þar er lagt til að dregið verði úr notkun koltvísýrings um 20% fyrir 2020. Það er hluti af hinni almennu stefnumörkun Evrópusambandsins sem við könnumst vel við.

Í þriðja lagi langar mig til að víkja að endurskoðun úrgangslöggjafar. Nú liggur fyrir tillaga að tilskipun um endurskoðaða heildarlöggjöf á þessu sviði þar sem sett eru töluleg markmið um að auka endurvinnslu úrgangs á næstu árum og áratugum. Að því er vikið í nokkuð ítarlegu máli í skýrslu hæstv. ráðherra Tekið skal fram í því sambandi að ég hef sett þau markmið í starfinu í umhverfisráðuneytinu að við drögum úr magni sorps frá heimilum og fyrirtækjum hér á landi, að við bætum flokkun úrgangs og aukum endurnýtingu hans. Þetta er að sjálfsögðu allt gert í takt við innleiðingu þeirra gerða sem við störfum eftir á grundvelli hins Evrópska efnahagssamnings en þess ber að geta að við erum nokkuð á eftir áætlun að ná þeim markmiðum sem nú þegar hafa verið sett. Brýnt er að ríki og sveitarfélög taki höndum saman um að sjá til þess að við náum markmiðum okkar í að minnka það magn úrgangs sem fer til urðunar og auka endurvinnslu úrgangs hér á landi.

Að auki hefur verið sett á laggirnar nefnd sem gera á tillögur til ráðherra um aðgerðir til að sjá til þess að það dragi úr magni prentpappírs, blaða, tímarita og auglýsingabæklinga hér á landi, þess óumbeðna pappírsflóðs sem berst inn á heimili landsmanna dag hvern.

Einnig er vert að nefna að reglur um meðferð efna og efnavara eru einnig teknar upp í samninginn og þessa dagana er verið að leggja lokahönd á frumvarp um efni og efnavörur í ráðuneyti umhverfismála í samræmi við svokallaða REACH-tilskipun. En löggjöfin hefur það að markmiði að auka vernd og heilsu og umhverfis af völdum hættulegra efna.

Það vill stundum verða svo í umræðunni um Evrópska efnahagssvæðið og þann samning sem við gerðum við Evrópusambandið að umhverfismálin séu sett til hliðar í þeirri umræðu. Þau eru í reynd mjög fyrirferðarmikil í samningnum og eins og ég sagði áður varðar stór hluti þeirra gerða sem okkur berast í gegnum samninginn umhverfismál af öllu tagi.

Það er mikilvægt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að innleiðing slíkra gerða kallar oft á mikla vinnu sérfræðinga, bæði við það að setja í reglugerðir og lög það sem þarf að gera en ekki síður að fylgja eftir þeim breytingum sem þeim fylgja. Vil ég í skyni nefna tilskipun um verslun og viðskipti með losunarheimildir, vatnatilskipunina svokölluðu og tilskipunina um efni og efnavörur sem nú er í vinnslu hjá ráðuneytinu. Það að standa vörð um íslenska hagsmuni, innan Evrópska efnahagssvæðisins, kostar peninga. Það kostar að við leggjum okkur fram um að innleiða þessar gerðir almennilega og standa vörð um hagsmuni íslensku þjóðarinnar og stjórnvalda hverju sinni í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Það gerist ekki bara einhvern veginn heldur með hnitmiðaðri vinnu og hnitmiðaðri hagsmunagæslu. Hana þarf að efla, m.a. á vettvangi umhverfismálanna. Þau eru, eins og hæstv. dómsmálaráðherra orðaði það fyrr í dag, hin raunverulegu og brýnu viðfangsefni sem við er að fást dag hvern í ráðuneyti umhverfismála og við er að fást dag hvern í stjórnsýslunni.