135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að eitt af því sem fjallað er um og tekið á í heildarstefnu Evrópusambandsins um málefni siglinga og sjávar, er mengun og mengunarvarnir, hvernig megi sporna gegn slíkri vá og hvernig ríki geti haft samstarf um að sjá til þess að öryggi sé sem mest í hafinu, ekki bara öryggi sjófarenda heldur einnig öryggi lífríkisins, öryggi hafsins.

Þetta er eitt af stóru viðfangsefnunum sem blasa við okkur á Íslandi og er gott dæmi um hvernig umhverfismál og öryggismál eru eitt og hið sama. Þetta gildir um vaxandi umferð olíuflutningaskipa um fiskimið okkar, um landhelgi Íslands og í kringum okkur á Norður-Atlantshafinu.

Einhvers staðar hef ég séð tölur um að skipum af þessu tagi gæti fjölgað í lögsögunni úr 100–150 í 400–500 á nokkrum árum, á næstu fimm árum eða svo. Það væri gríðarleg fjölgun. Hluti af því stóra verkefni sem við stöndum frammi fyrir er að stýra umferð þessara skipa þannig að sem minnst hætta sé á að slys valdi því að við stöndum frammi fyrir mikilli umhverfisvá. Ekki megum við við því á tímum þverrandi fiskstofna.

Þetta verður auðvitað að gerast í samvinnu við ríkin í kringum okkur. Að mínu viti hefur því verið mikils virði fyrir okkur að taka þátt í mótun heildarstefnu Evrópusambandsins um þessi málefni.