135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:57]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. En eins og fram hefur komið eru uppi áform um að reisa olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Á þessu stigi eru það ekki annað en hugmyndir sem ekki er vitað hvort einhver alvara er á bak við. Hins vegar gefa þær tilefni til þess að íslensk stjórnvöld athugi hvernig best sé að tryggja öryggið og ganga frá málum að sem minnstar líkur séu á mengunarslysum af þessum völdum.

Auðvitað er ekki tímabært að ræða þær hugmyndir eða slá frá sér að óathuguðu máli. En við hljótum alltaf að skoða heildarhagsmunina og meta þá á móti einstökum tækifærum eins og þessum sem þarna hafa komið upp. Og vissulega hljóta stærstu hagsmunirnir að vera að sjá til þess að ekki sé gengið á það öryggi eða möguleika á að við Íslandsstrendur verði áfram, eins og verið hafa, fiskstofnar sem hafa staðið undir uppbyggingu þjóðfélagsins á síðustu öld og breytt því úr einu af fátækasta landbúnaðarþjóðfélagi Evrópu yfir í eitt það ríkasta samfélag í heimi.

Ég legg mikla áherslu á að ríkisstjórnin haldi vöku sinni í þessu máli og sé viðbúin umræðunni um hitt ef það kemur upp þannig að menn geti tekið sem skynsamlegastar ákvarðanir í þessum efnum.