135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:11]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla sem hér féllu um íslensku krónuna og stöðu hennar og umræðu um evru þá er rétt að rifja upp að í skýrslu Evrópunefndarinnar sem hér hefur verið nefnd nokkrum sinnum í umræðunni er sérstaklega tekið fram að í skýrslu Viðskiptaráðs hafi komið fram — sú skýrsla hét Krónan og atvinnulífið og kom út árið 2006 — þar var bent á að evran kæmi ekki til álita sem lausn á þeim vanda sem steðjar að íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Ég held að það sé rétt að hafa það í huga.

Ég get tekið undir það með hæstv. viðskiptaráðherra að það er nauðsynlegt að kanna áhrif þess hvort hér sé að myndast fjölmyntasamfélag eða hvort aðrir möguleikar séu heppilegri en sá sem nú er uppi. En það er nauðsynlegt að menn gæti varkárni í orðavali, menn fari varlega í þessari umræðu. Við erum með íslensku krónuna og það er fyrirsjáanlegt að sú mynt verður myntin okkar um næstu ár, í fyrirsjáanlegri framtíð. Því skiptir miklu máli að grafa engan veginn undan trausti á myntinni á markaði. En það er sjálfsagt að við skoðum þessa hluti alla mjög vel.

Jafnframt er nauðsynlegt í þeirri umræðu sem nú hefur verið um bankana að menn gæti þess mjög hvernig þar er rætt um, til dæmis um skýrslu Moody's sem hér kom fram á dögunum en strax kom upp mikill misskilningur á efni þeirrar skýrslu. Sá misskilningur komst á kreik að það væri tillaga Moody's að íslensku bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Ljóst var þeim sem lásu þá skýrslu greinilega og ítarlega að um slíkt var ekki að ræða. Það sem um er að ræða þar er að það mundi minnka áhættuna á íslenska fjármálakerfinu ef bankarnir væru ekki hér. Það er auðvitað staðreynd. Þó að bankarnir haldi áfram að stækka svo mjög þá er ekki þar með sagt að þeir geti ekki unnið með íslensku myntina. Það þýðir auðvitað að það dregur úr getu íslenska hagkerfisins eða íslenska ríkissjóðsins til að mæta stórkostlegum áföllum en um er að ræða í skýrslunni stórkostleg áföll. (Forseti hringir.) Þar er verið að ræða um það hvað gerist ef stórkostleg áföll verða í íslenska bankakerfinu. Þess vegna hvet ég til þess að stjórnmálamenn (Forseti hringir.) sýni mikla varkárni í þessari umræðu.