135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:22]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Sú spurning hefur oft komið upp. Það eru kostir og gallar við að búa í fámennu landi og það er oft fórnarkostnaður af því. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu opnaði dyrnar fyrir erlenda fjármálastarfsemi með heimilisfesti í Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu hér á Íslandi. Það er engin fyrirstaða fyrir banka á því svæði að hefja starfsemi hér á starfsleyfi sínu í sínu heimalandi. Það lét ég athuga sérstaklega í haust þegar þessi umræða kom upp í þjóðfélaginu og fyrir því er engin fyrirstaða. Það eru þó bara aðilar innan bankanna sjálfra sem geta svarað spurningunni beint.

Leitað hefur verið eftir því — það voru fréttir í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í september um að þýskur stórbanki hygðist hefja viðskipti hér á Íslandi. Ég veit ekki hvað því líður en málið er í ákveðnum farvegi. Fyrir starfsleyfi hans hér, þar sem hann hefur starfsleyfi í Þýskalandi, er engin fyrirstaða. Þessir bankar eru boðnir velkomnir til Íslands með Evrópska efnahagssamningnum, það er engin hindrun innan lands né utan í sjálfu sér fyrir því að þeir hefji hér starfsemi. Sumir hverjir í bönkunum sem inntir hafa verið álits á því af hverju þeir hafi ekki hafið starfsemi hérna fyrir löngu síðan og veitt íslensku bönkunum samkeppni o.s.frv., hafa svarað því til að myntsvæðið sé lítið og þeir hafi þar með ekki áhuga á því að starfa hér, telji ábatann af því ekki nægjanlegan til að hefja hér starfsemi. Það hlýtur að vera mjög huglægt mat og breytilegt eftir bönkum og sjálfsagt er hægt að sannfæra einhverja öfluga evrópska banka um að það sé arðvænlegt og ábatasamt að hefja hér viðskipti. Kannski kemur sá þýski seinna á þessu ári eins og fréttir hermdu í haust þannig að guð láti á gott vita. Það er alla vega engin hindrun eða fyrirstaða fyrir þessa banka að hefja hér starfsemi, samningurinn tryggir það.