135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:25]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem lögð hefur verið fyrir hér Alþingi, hún er grunnurinn að þeirri umræðu sem nú stendur yfir. Ég tel skýrsluna vera mjög vandaða og yfirgripsmikla og veita ágæta innsýn inn í þau mál sem nú eru á döfinni er snúa að samstarfi Íslands við ESB á vettvangi EES-samningsins. Sé skýrsla utanríkisráðherra lesin samhliða þessari skýrslu má fá mjög greinargott yfirlit yfir öll þau helstu álitamál sem uppi eru í Evrópuumræðunni í heild sinni.

Ég vil líka taka undir það sem hér hefur verið sagt í dag og haft á orði að nauðsynlegt sé að aðkoma Alþingis sé efld að þeim málum sem hér er um að ræða. Sérstaklega vil ég taka undir þau ummæli sem hv. þm. Bjarni Benediktsson hafði hér í ræðu sinni og tel mjög nauðsynlegt að við förum vandlega yfir þær tillögur sem fram hafa komið hjá honum og öðrum um það hvernig hægt er að bæta aðkomu Alþingis að þessum þáttum. Jafnframt tel ég nauðsynlegt að Alþingi hafi sjónir með þeim grundvallaratriðum sem íslensk stjórnvöld eiga að hafa til viðmiðunar í umræðu um þau mál sem eru á EES-vettavanginum. Í ljósi þess vil ég ræða hér stuttlega mat mitt á stöðu mála á innri markaði ESB og hvaða sjónarmið það ættu að vera að mínu mati sem eigi að veita íslenskum stjórnvöldum leiðsögn.

Innri markaðurinn er grunnur að velferð okkar Evrópubúa og afnám tolla og ýmissa viðskiptahindrana hafa verið grundvöllurinn að þeirri velferð sem við nú njótum hér í álfunni. Lífskjör Evrópubúa eru góð og það er sama á hvaða mælikvarða er litið, hvort sem það er nú það sem við köllum lífsstíl, lífskjör, þ.e. aðgengi að menningu, félagslegu öryggi o.s.frv., eða tekjur okkar sem eru ágætar. Fyrir okkur Íslendinga er það alveg höfuðatriði að Evrópu gangi sem best í efnahagslegu tilliti. Þjóðir ESB eru okkar helstu viðskiptaaðilar og kröftugur hagvöxtur þar er ávísun á aukinn hagvöxt í samfélagi okkar.

Mér finnst stundum að þegar talað er um hagvöxt sé það orð hugsað eins og það sé bara einhver prósentutala sem skrýtnir hagfræðingar hafi helst áhuga á. Aukinn hagvöxtur þýðir fleiri og betri skólar, aukinn hagvöxtur þýðir fleiri og betri sjúkrahús, aukinn hagvöxtur þýðir bætt afkoma heimilanna og hærri ráðstöfunartekjur. Það er því lykilatriði í allri efnahagsstarfseminni að hagvöxturinn fari vaxandi þannig að okkur gangi betur að fullnægja þeim kröfum sem við viljum svo gjarnan gera fyrir samfélag okkar.

Því miður er það svo að hagvöxtur í Evrópu hefur verið of lítill á undanförnum árum. Rannsóknir sýna að framleiðnin er t.d. töluvert lægri í Evrópu en í Bandaríkjunum. Atvinnuleysi er því miður enn allt of hátt, sérstaklega hjá ungu fólki, og framleiðsla á hvern mann er umtalsvert lægri í Evrópu en hún er t.d. í Bandaríkjunum. Ekki eru þó öll heimsins gæði mælanleg með krónum og aurum og margt í þessu lífi skiptir meira máli en akkúrat peningarnir. Það er aftur á móti staðreynd, og það er hin harða staðreynd sem verður ekki umflúin, að ef Evrópu tekst ekki að bæta samkeppnisstöðu sína á mörkuðum heimsins munu lífskjör hætta að batna í álfunni og það sem meira er, draga mun úr lífskjörunum, þau munu versna.

Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að aldurssamsetning þeirra þjóða sem við ræðum um hér hefur verið að versna með hverju árinu sem líður. Sem dæmi um það er að árið 2002 voru 16% íbúa ESB eldri en 65 ára en árið 2025 er áætlað að hlutfallið verði komið upp í 20%. Í Þýskalandi er aðstaðan sennilega einna verst en þar er áætlað að hlutfallið verði komið yfir 30% árið 2025. Því miður eru lífeyrissjóðir álfunnar illa í stakk búnir til að takast á við þessi vandamál og hefur það reyndar oft verið rætt en það sem minna hefur verið rætt er að þessi þróun þýðir að sparnaður mun minnka í álfunni. Ef sparnaður minnkar þýðir það líka að fjárfesting mun dragast saman. Minnkandi fjárfesting þýðir líka samdrátt í hagvextinum nema ef til kemur töluverð aukning á framleiðni.

Einu svörin sem til eru við þessu eru þau að sparnaður aukist nú þegar á innri markaðnum og að framleiðnin aukist. Ef það gengur ekki eftir liggur fyrir að að draga þarf úr félagslegri velferð á því svæði sem við skilgreinum sem innri markaðinn og í löndum Evrópu. Það þýðir að við höfum síður efni á því að halda uppi þeirri þjónustu fyrir eldri borgara sem við viljum gera, sjúkrahúsunum o.s.frv. Ég tel því nauðsynlegt að Ísland styðji þétt við allar þær hugmyndir sem leitt geta til þess að auka virkni innri markaðarins.

Nú nýverið samþykkti Alþingi lög um starfsemi á fjármálamarkaði, sem er hluti af viðleitni ESB til þess að auka virkni þess markaðar, sem er auðvitað lykilatriðið í því að auka síðan afrakstur þeirra fjárfestinga sem ráðist er í. Virkur fjármálamarkaður er eitt lykilatriði þess að hægt sé að halda uppi öflugu hagkerfi.

Þjónustustarfsemi er um 70% af efnahagsstarfsemi ESB. Sú þjónustutilskipun sem mikið hefur verið rædd og var m.a. rædd hér fyrr í umræðunni í dag — það er lykilatriði að hún gangi fram til þess að koma á samkeppni á þessum stóra og mikilvæga hluta af efnahagsstarfseminni innan ESB-svæðisins. Samkeppni knýr fram aukna framleiðni og ef við náum ekki meiri samkeppni á þessum stóra hluta hagkerfisins er voðinn vís. Því miður ber nokkuð á þeirri skoðun að hægt sé að verja lífskjör í álfunni með því að koma í veg fyrir samkeppni og einangra sig fyrir henni, bæði inni á milli landanna sjálfra og gagnvart þeim löndum sem við eigum viðskipti við, hvort sem um er að ræða í Asíu eða í Ameríku.

Þessi hugsun ber feigðina með sér, hún byggist bara á því að fresta vanda sem óhjákvæmilegt er að fást við og gerir okkur erfiðara að fást við hann þegar hann kemur. Þess vegna tel ég alveg nauðsynlegt að í þessum þáttum, hvort sem um er að ræða þjónustutilskipunina eða aðra þá þætti sem horft geta til þess að auka virkni innri markaðarins, að íslensk stjórnvöld hafi það að leiðarljósi að styðja slíka tilburði. Til þess að setja það í samhengi hafa sérfræðingar lagt mat á að ef ekkert verður að gert og ef þessi aldursbreyting gengur fram og hefur þær efnahagslegu afleiðingar sem ég hef lýst hér, má reikna með því að eignir heimilanna í Evrópu verði 25% minni innan tveggja áratuga en ef við stæðum ekki frammi fyrir þessum vanda. Vandinn er því umtalsverður og ábyrgð okkar Íslendinga er sú að taka þátt í því með öðrum Evrópuþjóðum að tryggja að þessi markaður virki vel. Lykilorðin eiga því að vera: Samkeppni, framleiðniaukning, einfalt regluverk og nýsköpun.

Ég tel að þegar saman eru teknar þær skýrslur sem hér hafa komið fram, bæði frá utanríkisráðherra og frá Evrópunefndinni, sem var undir stjórn hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar, séum við komin með mjög góðan grunn til að halda áfram þeirri umræðu um Evrópumál sem er svo nauðsynleg. Við getum velt fyrir okkur hvaða möguleika við höfum til að hafa aðgang eða taka þátt í ákvarðanatöku og rætt um áleitnar spurningar eins og t.d. um þá mynt sem við kjósum að nota eða þá hvernig við lítum á þjóðréttarlega stöðu Íslands í þessu samstarfi. Aðalatriðið er að sú umræða sé bæði opin og gegnsæ og hún sé — svo ég noti nú orð sem ég hef nú heyrt nokkuð í dag — „framsækin“.

Ég vil þó benda á að það er ekki það sama að hafa framsækna, opna umræðu og að finna út með hvaða leiðum við getum sótt um aðild að ESB eða hvernig við getum sett Ísland inn í ESB. Umræðan getur bæði verið opin, framsækin og málefnaleg þó að verið sé að færa rök fyrir því að ástæða sé fyrir Ísland að halda sig utan ESB. Til dæmis hafa menn bent á að með hinum mikla hagvexti sem við höfum orðið vitni að í ríkjum Asíu, í Kína og á Indlandi, þá sé ástæða fyrir okkur Íslendinga að komast hjá því að binda okkur inn í tollabandalag eins og ESB en nýta einmitt aðganginn að innri markaðnum. Um leið nýtum við okkur þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir, t.d. með beinum tvíhliða viðskiptasamningi við Kína sem gæti reynst okkur Íslendingum alveg stórkostlegt tækifæri.

Við skulum ekki gleyma því að það er áætlað að um einn milljarður nýrra neytenda komi inn í hagkerfi heimsins á næsta einum og hálfum áratug eða svo, einn milljarður neytenda sem þýðir að neyslugeta þess hóps, sá vöxtur sem verður þar er áætlaður, verði svipaður og öll neysla í vesturhluta Evrópu, þ.e. í gömlu ESB-ríkjunum. Við horfum því fram á alveg gríðarleg sóknarfæri og það er stórkostlegt fyrir Ísland að hafa þennan góða aðgang að innri markaði ESB og um leið að eiga tækifæri að gera samninga við ríki eins og Kína sem við getum í krafti þess hversu lítil við erum.