135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:35]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnismikla ræðu. Ég er honum hjartanlega sammála í því að kalla eftir fordómalausri, opinni og framsækinni umræðu sem ekki felst í fyrir fram gefin niðurstaða. Þar er ég honum algjörlega sammála.

Hv. þingmaður vakti athygli á þeirri stöðu sem Evrópa stendur frammi fyrir í þróun á næstu áratugum. Það er alveg rétt, aldurssamsetning álfunnar er með þeim hætti að það kallar á öfluga samkeppni á Evrópumarkaði og kröftugt atvinnulíf.

Blessunarlega er það nú svo, að það er mjög margt í regluverki í uppbyggingu Evrópusambandsins sem býr í haginn fyrir þetta tvennt. Ég vil minna á að hið ágæta tímarit Economist hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir miklar vangaveltur, að reglunaraðferðir Evrópusambandsins séu einmitt mun hentugri og heppilegri fyrir atvinnulíf en t.d. reglunaraðferðir Bandaríkjanna sem byggjast á stífri eftiráreglun frekar en á nýtingu staðla og valddreifingar í ákvarðanatöku um reglur fyrir viðskiptalífið, eins og raunin er í Evrópu.

Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að við búum í haginn fyrir öfluga og kröftuga samkeppni á Evrópumarkaði en vegna þess hvernig aldurssamsetningin er, er líka ljóst að í ríkjum Evrópu mun fjölga mjög innflytjendum á næstu árum. Það er mjög mikilvægt að byggja líka á öflugri vinnumarkaðsstarfsemi, að við tryggjum öfluga aðkomu verkalýðsfélaga, stöndum vörð um réttindi fólks til eðlilegs vinnuumhverfis og við gætum þess að brjóta ekki réttindi fólks af ólíkum uppruna sem í auknum mæli verður fólkið sem kemur til með að búa og vinna með okkur í ríkjum Evrópu á næstu áratugum.