135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[16:24]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur verður nú að bera ábyrgð á þeirri gjörð ásamt fleiri þingmönnum á sínum tíma. Ég vil árétta að varðandi þau atriði sem ég nefni hér tengd ESA, er ekki við núverandi hæstv. utanríkisráðherra eða hæstv. samgönguráðherra að sakast. Það er við aðra að sakast sem ég nefni ekki. Það er þó mikilvægt að fjalla um málið og verja.

Það er engin spurning að tilskipanirnar sem við erum háð með samningum hafa svigrúm. Þær hafa svigrúm til fyrirvara og ýmissa atriða til hagræðingar í þágu þjóðarinnar. Það er okkar sérstaða, eins og allra annarra þjóða í þessu samstarfi, að við þurfum að túlka það okkur í hag. Það er það sem hefur brugðist.

Það er alveg rétt hjá hæstv. samgönguráðherra að við vorum ekki á vaktinni þegar kom að vökulögunum, eins og ég nefndi reyndar áðan. Ég get nefnt annað dæmi sem er vont dæmi varðandi þetta. Það eru flugvallargjöldin sem stjórnvöld settu á fyrir nokkrum árum. ESA ruddist inn í málið og vildi dæma þá gjörð úr leik.

Þá var gerður samanburður, að minnsta kosti á Bretlandseyjum, sem leiddi í ljós að mismunur var, alveg eins og hér var sett upp, á skattheimtu vegna fluggjaldanna. Á til að mynda á svæðum í Skotlandi, hinum svokölluðu Highlands- and Islands-svæðum, borguðu menn mun lægri flugvallarskatt.

Þessu var sópað út af borðinu hjá okkur. Það gerði ESA með því ofurvaldi sem það býr yfir. Þess vegna sátum við ekki við sama borð og nágrannar okkar við sömu aðstæður.