135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[16:28]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að enginn bilbugur á hæstv. ráðherrum varðandi að styrkja stöðuna í þessum efnum. Til þess eru vítin að varast þau og við höfum mörg dæmi um þessi víti sem komið hafa okkur illa og sett okkur stólinn fyrir dyrnar í ýmsum byggðarlögum landsins eins og í stærstu verstöð á landsbyggðinni, Vestmannaeyjum. Þar varð tjón tengt jarðskjálftum fyrir einu og hálfu ári síðan og ekki er hægt að bregðast við með því að lagfæra og bæta vegna þess að ESA stoppar það. Hvernig eigum við að vera í svona sambýli?

Þess vegna er það svo mikilvægt að við stöndum vaktina, eins og hæstv. samgönguráðherra vék að, við stöndum vaktina og gætum okkar í öllum þessum þáttum, bæði stórum og smáum.

Ég mun í síðari ræðu minni í þessari umræðu fjalla svolítið um þann þátt. Þar mun ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að gera úttekt á þessu ferli, gera úttekt á þeim dæmum sem tengjast ýmsum ráðuneytum á Íslandi, gera úttekt á styrkjaferlinu sem við búum við og mismuninum hjá Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu. Við höfum ekki klárað þá vinnu þannig að hún hafi skilað þeim árangri sem við eigum að krefjast og vænta.