135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:11]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Harðarson auglýsti eftir röklegri umræðu um Evrópusambandið og Evrópumál og kvartaði jafnframt yfir því að hafa ekki verið virtur viðlits í langhundum sem hann hefur skrifað með sérstakri velþóknun fulltrúa fortíðarinnar á Morgunblaðinu, ritstjóra þess blaðs, á síðustu vikum. Ástæðan er mjög einföld. Hún er sú að þar hefur hann fært málefnalega umræðu niður á mjög sérstakt plan með staðhæfingum sínum og það hefur eiginlega verið nokkuð erfitt að finna svör við því. Hann gerir það líka núna, hann gerir fólki upp skoðanir, notar hið víðfræga menntaskólatrikk að tilkynna fyrir fram hvaða skoðanir aðrir hafi á málinu, að allir tali alltaf af nauðhyggju t.d. Ég bendi hv. þingmanni á að ég færði fyrir því gild rök í máli mínu fyrr í dag að þetta væri brýnt hagsmunamál fyrir íslenska alþýðu og á þeim forsendum er auðvitað hægt að ræða málið. Ef hann vill tala um einhverja nauðhyggju getur hann talað um þá nauðhyggju við einhverja aðra sem hann telur hafa fært þau rök fram.

Hv. þingmaður vék að afstöðu Framsóknarflokksins sem er satt að segja einhver sundurlausasti sjö manna hópur í landinu þegar kemur að afstöðu til Evrópusambandsins — og situr hér í sæti hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og tekur niður mikla punkta. Mig langar aðeins að spyrja hann í ljósi þess að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lýsti því yfir í fyrra, þegar hún var hæstv. utanríkisráðherra, að aðild að EES hefði verið stórt stökk fyrir íslenskt samfélag en aðild að Evrópusambandinu væri stutt skref, mig langar að fá að heyra álit hv. þingmanns á þessu og jafnframt að biðja hann um að útskýra betur fyrir okkur eindrægnina sem ríkir í Framsóknarflokknum um Evrópumálin.