135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:13]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal fúslega svara þeim spurningum sem hér eru lagðar fyrir mig en mér þykir aftur á móti skorta nokkuð á eðlileg tjáskipti þegar greinar mínar eru í fyrsta lagi kallaðar langhundar og í öðru lagi talað um að þær séu ekki svara verðar. Mér þykir það ekki mjög virðuleg eða málefnaleg umræða hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni og raunar mikið vafamál að slíkir menn verðskuldi að við þá sé talað sem þannig tala á móti.

Ég vil samt leitast við að svara þessum spurningum. Það er ekki eindrægni um Evrópumálin í þingflokki Framsóknarflokksins. Því hef ég ekki haldið fram og það er ekki svo. Aftur á móti er eindrægni um ákveðnar grunnhugmyndir varðandi þjóðhyggjuna og varðandi þær forsendur sem þyrftu að vera fyrir hendi til þess að Íslendingar gætu komist eitthvað nærri því að ræða aðild að Evrópusambandinu. Það er reyndar svo að eins og haldið er á efnahagsstjórn landsins núna rekur þjóðina fjær og fjær því markmiði.

Varðandi það hvort ég teldi að stigið hefði verið stórt skref með aðild Íslands að EES. Já, ég tel að stigið hafi verið stórt skref með því. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvort það yrði, hvað, lítið skref að fara þaðan inn í ESB. Ég get ekki fallist á þann skilning. Þar greinir okkur Valgerði Sverrisdóttur, varaformann Framsóknarflokksins, á og það er ekkert merkilegt við það. En ég held líka að menn hafi mjög oft ofmetið þær breytingar sem hafa átt að verða á íslensku hagkerfi með aðild okkar að EES og vil í því sambandi benda á að í raun og veru er hinn hagræni vöxtur íslenska hagkerfisins ekkert meiri á þeim 15 árum en nánast hvaða öðrum 15 árum í sögu íslenska lýðveldisins fyrr.