135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:20]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur farið fram um skýrsluna og ég fagna því sérstaklega hversu margir hafa tekið til máls en mér telst svo til að um 20 þingmenn hafi talað hér í dag og þar af 6 ráðherrar. Ég tel að það sé ekki oft sem það gerist á þingi að svo mikil og almenn þátttaka sé í umræðu og að hún sé jafngóð og málefnaleg og hún hefur verið hér í dag og ég vil þakka sérstaklega fyrir þetta.

Ég verð þó að segja að á þessu eru kannski ákveðnar undantekningar og ég var ekki alls kostar sammála félaga mínum hér á þingi, Bjarna Harðarsyni, í því sem hann sagði áðan um Evrópusambandið og þetta mikla skrímsli sem það er í hans augum. (Gripið fram í.) Hann talaði um regluverkið og að engum einum aðila hefði tekist að hafa heildarsýn yfir allt regluverk Evrópusambandsins. Það hygg ég að sé alveg rétt hjá þingmanninum en ég hygg líka að það sé ekki hægt að leiða fram neinn einstakling sem hafi heildaryfirsýn yfir allt íslenskt regluverk. Það á því ekkert síður við um hið íslenska samfélag en Evrópusambandið, að það er orðið margslungið og flókið og ekki einum manni ætlandi að hafa yfirsýn yfir allt sem þar gerist. Það segir því auðvitað ekkert um Evrópusambandið í sjálfu sér.

Varðandi Bjart í Sumarhúsum og það sem ég sagði um hann var ég að vísa til þess að hann taldi, og sú var raunin hér á Íslandi og er kannski enn, að með einangrun væri sjálfstæðið best tryggt og það væri best að búa að sínu og hafa sem minnst samneyti við Rauðsmýrarhyskið. Þannig er nú ýmsum enn háttað, (Gripið fram í.) það reyndist honum ekki vel og ég held að það reynist okkur ekki heldur vel í dag að hafa þá heimssýn.

Aðeins varðandi það sem ég sagði um umræðuna á sínum tíma um EES-samninginn og Steingrími J. Sigfússyni þingmanni fannst ósanngjarnt þá kann það vel að vera að það hafi verið nokkur einföldun af minni hálfu. Ég hygg samt ef umræðan er skoðuð núna í ljósi þeirra atburða sem síðan hafa orðið muni ýmsir reka sig á að þar var margt sagt sem var náttúrlega mjög ýkt mynd af veruleikanum og dregin upp mjög svört mynd af því sem fram undan væri ef við gengjumst þessu stórveldi á hönd sem Evrópusambandið var talið vera og sem við vorum þá að bindast ákveðnum samningum.

Það skiptir svo sem engu máli núna, núna erum við að vinna úr þeirri stöðu sem við erum í í dag og við þurfum að þróa samstarfið á vettvangi Evrópusambandsins og við Evrópusambandið með hagsmuni íslensks almennings í huga og vera alltaf á þeirri vakt. Það er verkefni okkar sem erum á þingi að standa vaktina.

Það kom hér ýmislegt fram, virðulegur forseti, sem ég hefði viljað reyna að svara, sem getur kannski verið erfitt af því að tími minn er naumur. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði um samningaviðræður á sviði landbúnaðarmála og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór svo sem yfir það hér og það þarf kannski ekki að svara því en í því sambandi erum auðvitað við alltaf að tala um gagnkvæmni, að menn bæði gefa og taka í slíkum samningum. Það skýrist væntanlega á næstunni hvernig okkar upplegg verður í því sambandi.

Þingmaðurinn spurði um dvalarleyfi og frjálsa för fólks og taldi að Íslendingar og Liechtenstein hefðu sett þar of þröngar skorður. Það var reyndar ekki alveg sama ástæðan hjá Liechtenstein og Íslendingum, Íslendingar töldu að þetta ætti að vera hluti, ekki af innri markaðnum heldur af innflytjendastefnu viðkomandi ríkja en það var ekki viðurkennt af hálfu Evrópusambandsins. Við tökum þetta því upp sem lið í innri markaðnum, þ.e. að borgarar þriðju ríkja fá réttindi eins og EES-borgarar séu þeir tengdir EES-borgurum fjölskylduböndum. Annars gildir bara íslensk stefna í þessum efnum sem við höfum á valdi okkar hér á þingi.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spurði um póstmálin og það er jú þannig að það hefur þegar verið opnað fyrir samkeppni á því sviði og tilskipunin um póstmál er framhald af þeirri þróun og ég legg auðvitað fyrst og fremst áherslu á það að þjónusta verði ekki skert í því sambandi.

Þá var spurt um loftferðasamninginn við Bandaríkin og hvort aðild okkar að loftferðasamningi ESB og Bandaríkjanna mundi skerða samningsfrelsi Íslands í samskiptum sínum við þriðju ríki. Það er ekki svo, hún mun ekki skerða þetta samningsfrelsi, við munum hafa það áfram að öllu leyti.

Hann spurði líka um úrgangsmál og hvaða samráð væri haft við sveitarfélögin. Hann spurði líka um kostnað og hvernig hann yrði fjármagnaður. Það má segja að þessi tilskipun Evrópusambandsins sé gott dæmi um áhrif EES-samningsins á okkar daglega líf og það er auðvitað mikilvægt að við höfum fullt samráð við sveitarfélögin um þetta og við munum gera það í undirbúningi þessarar tilskipunar. Ég hlýt einnig að hvetja fulltrúa sveitarfélaganna til að taka ákveðið frumkvæði í þessum efnum, rétt eins og það er líka mikilvægt að Alþingi taki þar frumkvæði. Þetta er ekki bara spurningin um að ríkisstjórnin sitji með þessi mál í fanginu og eigi síðan að stjórna allri upplýsingamiðlun og umferð, þetta virkar í báðar áttir, sveitarfélög og Alþingi geta haft ákveðið frumkvæði líka. Ég geri ráð fyrir að fjármögnunin verði skoðuð sérstaklega þegar þessar tillögur eða þessi tilskipun hefur verið samþykkt.

Jón Magnússon spurði út í neytendamál og opna og frjálsa verslun, m.a. á netinu, að menn ættu að geta verslað hvar sem er á svæðinu. Hann spurði hvort þessar nýju reglur um neytendamál mundu fella úr gildi aðra fyrirvara sem giltu um t.d. fjármálafyrirtæki, lyf, matvæli og annað slíkt, og svo er ekki. Ef Íslendingar kaupa á netinu vöru sem er tolluð inn á íslenskum mörkuðum lendir sú vara í tolli þegar hún kemur til landsins þó að hún sé keypt á netinu. Þetta breytir ekki því í sjálfu sér.

Þá var rætt sérstaklega um það hvernig Alþingi ætti að koma að þessum málum og það m.a. gagnrýnt að það hefðu ekki borist til utanríkismálanefndar þær gerðir og tillögur og tilskipanir sem tíundaðar eru m.a. í viðauka II í skýrslunni og þær hefðu átt að koma til nefndarinnar í fyrra. Ég held að nefndin hefði ekkert haft með þær að gera í fyrra. Nefndin hefði þurft að fá þessar tilskipanir til skoðunar fyrir tveimur og þremur og jafnvel fjórum árum þegar þær voru á undirbúningsstigi. Í fyrra voru tilskipanirnar sem eru í viðauka II allar orðnar að veruleika og of seint að fjalla um þær í utanríkismálanefnd, þannig að það þarf að gerast miklu fyrr meðan enn var hægt að hafa áhrif á málið.

Árni Johnsen þingmaður sagði að það væri mikilvægt að Íslendingar skerptu sérstöðu sína í samfélagi þjóða. Ég er alveg sammála því og við getum gert það um leið og við störfum með öðrum og erum öflug í samstarfi við aðra, þá getum við líka ræktað sérstöðuna, það er nefnilega hægt að gera hvort tveggja. Ég er alveg sammála því að við verðum alltaf að passa upp á sérstöðu okkar og hagsmuni þó að við tökum heils hugar þátt í samstarfi þjóða.

Þjónustutilskipunin kom hér sérstaklega til umfjöllunar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði hana að umtalsefni og ég verð að játa að mér gengur svolítið erfiðlega að gera hv. þm. Ögmundi Jónassyni til hæfis, það er sama hvað það er í raun. Hann gagnrýndi að hér færi ekki fram umræða um Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi líka að ekki væri umræða um ÖSE og Evrópuráðið af minni hálfu. Hins vegar var það líka gagnrýnt að umræðan væri ekki nógu þröng, hún væri ekki nógu víð en heldur ekki nógu þröng því að hún hefði í rauninni átt að fara fram betur og þrengra um einstök mál og var þjónustutilskipunin sérstaklega nefnd í því sambandi.

Hvað þjónustutilskipunina varðar þá er ég sannarlega tilbúin að ræða hana hvenær sem er og það stendur ekki á mér að gera utanríkismálanefnd eða þinginu, eftir atvikum, grein fyrir henni. Ég tel raunar að það sé full ástæða fyrir utanríkismálanefnd að taka þjónustutilskipunina til sérstakrar umræðu og skoða hvernig innleiðingu hennar verði háttað. Hitt verðum við að horfast í augu við að þjónustutilskipunin er í sjálfu sér orðin að veruleika. Spurningin er um innleiðinguna, hvernig við viljum haga henni og eftir atvikum (Forseti hringir.) ef menn telja að það eigi að beita neitunarvaldi, sem ég er auðvitað ekki sammála, þá komi það fram í þeirri umræðu.