135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hefði nú óskað að hæstv. utanríkisráðherra hefði varið minni tíma í umbúðir og reynt að svara spurningum hér málefnalega. Ég spurði um afstöðu til heilbrigðistilskipunarinnar sem er til umfjöllunar, búið að fresta henni fram á vorið. Menn eru að takast á um þetta, það er alveg rétt, og ég er að spyrja um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar til þeirra efnisþátta sem verið er að takast á um, sem Norðmenn eru að takast á um, sem lúta að því sem borgarstjórar í öllum helstu borgum Evrópu hafa lýst áhyggjum yfir, sem hálf milljón manna hefur sent inn undirskriftir sínar til að andmæla.

Hver er afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar og kemur til álita að Ísland beiti neitunarvaldi? Þetta er mikilvæg prinsippspurning, ef samþykkt verður tilskipun um heilbrigðismálin að fella hana undir markaðssáttmálann. Menn eru að takast á um þetta efni. Og ég spurði líka um raforkumálin. (Forseti hringir.) Kemur til álita að endurskoða afstöðu Íslendinga í því efni og reyna (Forseti hringir.) að færa okkur undan ákvæðum tilskipunar um það efni?