135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:42]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég á að fara meira út í þessa umræðu um Bjart í Sumarhúsum en vil þó í einni setningu benda á að Útirauðsmýrarfólkið, sem hæstv. utanríkisráðherra minntist á áðan, reyndist nú í þeirri bók vera eiginlega meira afturhald en Bjartur sjálfur og þá er samlíkingin kannski fullkomin.

En ég hjó eftir því að hæstv. utanríkisráðherra virtist ekki hafa heyrt áður þá skoðun sem ég hafði slegið hér fram, að ESB væri bæði tröllaukið og ólýðræðislegt skrifræðisbákn. Ég undrast það svolítið með hæstv. utanríkisráðherra, sem hefur nú ekki verið lokuð mjög lengi inni í ráðuneyti, og ætti þess vegna að hafa nokkur tengsl, bæði við almenning hér og í Evrópu, að það sé henni nýmæli að heyra þessa skoðun. Ég held líka að það sé mikill misskilningur að lagakerfi Íslands sé með þeim hætti að enginn maður hafi yfirsýn yfir það. Ég held hreinlega að menn séu ekki útskrifaðir með lagapróf nema hafa nokkra yfirsýn yfir íslenskt lagakerfi. Það er ekki svo viðurhlutamikið.

En mig langar sérstaklega til að spyrja hér í tengslum við þau orð sem féllu áðan í máli Árna Páls Árnasonar um meintan framsóknargerning, að það hefðum verið við framsóknarmenn sem réðum því að hvað varðar réttindi fólks utan EES-svæðisins væri það mjög hlunnfarið. Ég fæ það ekki til að ganga heim og saman við það sem ég les í skýrslu utanríkisráðherra, kafla nr. 4.2.3, um frjálsa för fólks. Þá held ég einmitt að þessi skerti réttur fólks utan Evrópusambandsins sé hluti af þeim samningum sem við höfum undirgengist. Ef þetta er einasta verk Framsóknarflokksins að svona er komið þá spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Megum við þá vænta þess, þar sem (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn er ekki lengur við stjórn, að þetta muni breytast? (Forseti hringir.)