135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:46]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Ég vil ítreka síðustu spurninguna varðandi þetta um leið og mig langar að víkja aðeins að þessu með letina. Ég held að það hafi ekkert með leti að gera að kynna sér Evrópumál, kynna sér það mikla skrifræði sem þar er og komast að þeirri niðurstöðu að það sé mikið skrifræðisbákn.

En varðandi það hvort þetta séu einungis íslensk lög og einungis ákvörðun Íslendinga að skerða svo mjög réttindi þegna annarra landa eins og gert er hér á landi núna. Ef það er svo þá spyr ég ítrekað: Stendur til að breyta því með einhverjum hætti? Ég hef reyndar dálitlar efasemdir um svarið því að eins og ég hef skilið reglurnar hjá starfsmönnum Vinnumálastofnunar þá ber þeim að auglýsa störf á Evrópska efnahagssvæðinu og geta ekki komist undan því. Leiðir hjá mér til að ráða ungan mann frá Indlandi eða Afríku til starfa sem pitsusendil á Íslandi eru talsvert takmarkaðar vegna þessara skilyrða um að ég auglýsi starfið á (Forseti hringir.) hinu Evrópska efnahagssvæði.