135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:54]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi einfaldlega nota þetta tækifæri til að hrósa hv. þingmanni Kristni H. Gunnarssyni. Það er ólíku saman að jafna afstöðu hans til innflytjenda og því sem við máttum venjast úr ranni frambjóðenda Frjálslynda flokksins í kosningabaráttunni í vor. Ég tel það sérstakt fagnaðarefni hvernig hann talar um hið mikla framlag sem fólk af ólíku þjóðerni hefur lagt fram sérstaklega á Vestfjörðum undanfarna áratugi og hefur auðgað þar mannlíf og gengið mjög vel.

Það er algjör óþarfi að gera Evrópusambandið að einhverri grýlu í innflytjendamálum. Eina skuldbindingin sem við þurfum að virða er að við megum ekki bjóða íbúum Evrópusambandsins lakari rétt en okkar eigin borgurum. Það er eina skuldbindingin, svona í stuttu máli sagt. Að öðru leyti höfum við fullt frelsi til að haga innflytjendalöggjöf og útlendingalöggjöf okkar eftir eigin hag.

Ég held að full ástæða sé til að fara yfir það hvaða reglur er eðlilegt að hafa um þessi mál. Ég held að mjög mikilvægt sé að við gætum að jafnvægi á vinnumarkaði sem kostur er. Við forðumst kollsteypurnar og höfum ákvæði í lögum sem gera okkur kleift að hafa eins mikla stjórn á vinnumarkaði og við mögulega getum til þess að bregðast við óvæntum aðstæðum.

Ég fagna sérstaklega þeim áherslum sem vonandi eiga sér víðtækan hljómgrunn í Frjálslynda flokknum í dag.