135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:01]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni og það er mjög líklegt að við förum í það, við erum alla vega komin inn á þá braut að rýmka þessar reglur núna og það er aldrei að vita, ég býst við að við getum haldið áfram á þeirri braut og tökum þetta skref fyrir skref. Þessi mál eru auðvitað sífellt í endurskoðun.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að ég fagna því mjög hvað við stígum í takt í þessu máli, ég og hv. þingmaður og flestir hér inni, og ég hlakka til að afgreiða þessi mál með honum, þ.e. útlendingafrumvarpið og frumvarpið um atvinnuréttindi útlendinga, og afnema í sameiningu með hv. þingmanni og þingheimi öllum hina umdeildu 24 ára reglu svo dæmi sé tekið.