135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í þessari lokaræðu minni á fimm mínútum ætla ég að vekja athygli á tveimur, þremur atriðum og byrja á því að ítreka það sem áður kom fram í máli mínu, að ég tel þessa umræðu vera mjög mikilvæga og tel mjög mikilvægt að við dýpkum umræðuna almennt um aðkomu Íslands að alþjóðamálum. Við höfum iðulega tekið upp þá umræðu undir utanríkismálaumræðunni, m.a. um Alþjóðabankann, Alþjóðaviðskiptastofnunina og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég hef stundum reynt að spyrja fyrrum hæstv. utanríkisráðherra út úr og orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að þeir hafa varla kannast við sjálfa sig, hvað þeir hafa verið að segja á erlendri grundu, það er að vísu nokkuð um liðið síðan svo var, en ég hef saknað lýðræðislegrar umræðu um stefnumótun Íslands almennt. Það er góðra gjalda vert að ræða almennt um afstöðu okkar til Evrópusambandsins og hins Evrópska efnahagssvæðis en ég vek einnig athygli á mikilvægi þess að taka einstaka efnisþætti til rækilegri umfjöllunar.

Það er nú svo með Evrópusambandið og hið Evrópska efnahagssvæði að þær tilskipanir og þær samþykktir sem þar eru gerðar og við þurfum síðan að innleiða eru flestar hverjar lítt umdeildar og ganga mjög smurt í gegnum þingið, m.a. með samþykki okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, enda er ég þar að vísa í samþykktir sem eru gerðar og til þess fallnar að staðla samskipti og koma þeim í smurðan farveg. Þetta eru samþykktir sem iðulega eru unnar af embættismannakerfunum og fá síðan staðfestingu á þingum. Það eru hins vegar hinar pólitísku ákvarðanir sem þurfa rækilegri umræðu við og sem ganga út á að breyta samfélagsgerðinni.

Gagnrýni mín á Evrópusambandið og hið Evrópska efnahagssvæði er fyrst og fremst tvíþætt. Í fyrsta lagi tel ég þessa aðild stundum vera of útilokandi eða innilokandi, ég veit ekki hvort orðið ég á að nota, að í alþjóðavæddum heimi beri okkur að hafa heiminn allan undir en loka okkur ekki inni í þeim klúbbi sem Evrópusambandið vissulega er. Það er mjög þröngur klúbbur þegar kemur að ákvarðanatöku og vísa ég þar m.a. í þann framgangsmáta sem Evrópusambandið hefur á í samskiptum sínum við Alþjóðaviðskiptastofnunina, í samningunum þar á bæ um GATS svo dæmi sé tekið. Hin gagnrýnin er sú að Evrópusambandið hafi í of ríkum mæli verið að færast frá þeirri gerð að vera samfélag yfir í að vera markaður og frá því að við tökum þar þátt sem þegnar og borgarar og verðum viðskiptamenn og neytendur. Þetta er breytingin sem við höfum verið að gagnrýna, það er hin svokallaða Lissabon-þróun sem ég vék að í mínu máli áðan þar sem menn settu sér markmið hvað þetta snertir að ná því fyrir árið 2010 að Evrópa yrði kröftugasta markaðssvæði heimsins. Út á það hefur slagurinn síðan gengið.

Kem ég þá aftur að þeim spurningum sem ég hef beint til stjórnvalda og pólitískra flokka hér á þinginu í fyrsta lagi varðandi raforkutilskipunina. Nú er það svo að Samfylkingin segir að það sé hægt að semja sig inn í Evrópusambandið og breyta ýmsum forsendum sem aðrir telja illa yfirstíganlegan þröskuld, þetta hefur verið afstaða Samfylkingarinnar. Þegar það nú sýnir sig að raforkumálin, markaðsvæðing þeirra hafi ekki skilað þeim árangri utan lands og mikil áhöld um að það geri það hér á landi, er Samfylkingin þá reiðubúin að endurskoða afstöðu sína? Er hún tilbúin að beita sér fyrir því að við tökum þennan geira undan markaðsákvæðunum, göngum í viðræður um það efni?

Hitt sem ég vildi fá svör við var afstaða Samfylkingarinnar sérstaklega, við þekkjum afstöðu Sjálfstæðisflokksins, hann vill einkavæða allt sem einkavætt verður og hægt er að einkavæða og er tekinn til við þá iðju í heilbrigðisráðuneytinu, en ég vil fá afstöðu og hef verið að auglýsa eftir afstöðu Samfylkingarinnar til þeirra (Forseti hringir.) deilna sem staðið hafa síðustu vikurnar um nýja heilbrigðistilskipun.