135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú mynd sem ég er að draga upp er nákvæmlega sama myndin og dregin er upp á fundum og ráðstefnum verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu. Ég hef setið þessa fundi og aldeilis ekki setið þar aðgerðalaus, því fer fjarri.

Fyrsta skrefið sem menn þurfa að stíga er að kynna sér málin og hafa skoðun á þeim. Það er eftir þessari skoðun sem ég hef verið að auglýsa. En það stendur svolítið á því að fá hana. Ég skildi það á hæstv. utanríkisráðherra gagnvart heilbrigðistilskipuninni að við ættum að sitja á áhorfendabekk fram á vor eða þangað til tilskipunin er komin. Jú, ég skildi það svo. Og þá gætum við tekið afstöðu til þeirrar prinsippspurningar hvort við værum reiðubúin að beita neitunarvaldi.

Síðan er afar fróðlegt að heyra talsmann Samfylkingarinnar segja að tilskipanir Evrópusambandsins séu óumbreytanlegar. Þetta er sami flokkur og segir við þjóðina að menn skuli ganga til samninga um aðild að Evrópusambandinu því að þar á bæ séu menn afskaplega sveigjanlegir. Ég spyr: Gæti verið einhverja litla mótsögn að finna í þessum málflutningi?