135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en það eru ein þrjú atriði sem mig langar til að víkja hér lítillega að.

Í fyrsta lagi svaraði hæstv. utanríkisráðherra því meðal annars svo þegar rætt var hér um og spurt um hina svonefndu þjónustutilskipun að þar væri á ferðinni viðfangsefni sem utanríkismálanefnd ætti að sjálfsögðu að taka til skoðunar. Ég held að það sé alveg sjálfsagt mál að gera það og hárrétt að utanríkismálanefnd fari ofan í saumana á því og kynni sér stöðu málsins. Það hefur reyndar verið á dagskrá að utanríkismálanefnd heimsæki Noreg og það bæri þá vel í veiði að fara yfir það með Norðmönnum þar sem er einmitt verið að vinna mjög mikla könnunar- eða rannsóknarvinnu á því hvernig innleiðing hennar að óbreyttu eins og nú horfir kæmi við Noreg og svara þá um leið spurningunni hvort til þess komi að Noregur beiti neitunarvaldi.

Í öðru lagi verð ég að segja að mér finnst Bjartur karlinn í Sumarhúsum liggja svolítið óbættur hjá garði úr því að menn fara í að vitna í hann. Nú geta menn sjálfsagt lesið það allt saman hver með sínum gleraugum og haft ótal skoðanir á Bjarti. En ég hef ekki upplifað hann þannig að hann hafi fyrst og fremst verið einangrunarsinni og hann hafi búið í heiðinni af því að honum hafi liðið endilega illa innan um annað fólk og ekkert samneyti viljað við það hafa. Ég hef lesið söguna Sjálfstætt fólk þannig að Bjartur hafi flutt í heiðina vegna þess að það gerði honum kleift að verða að sjálfstæðum manni og þurfa ekki að vera undirsáti annarra. Þannig fékk hann jarðnæði og þurfti ekki að vera leiguliði. Bjartur er því í mínum huga einmitt sjálfstæðissinni miklu frekar en nokkuð annað. Hann mat sjálfstæði sitt meira en flest annað og af því er nafnið sprottið (Gripið fram í.) og mér finnst ekki ... Já, já, menn geta haft á þessu allar skoðanir. En mér finnst það ekki sanngjarnt að afgreiða hann bara þannig að hann sé lókus týpíkus fyrir það sem hæstv. utanríkisráðherra vill gjarnan að séu einangrunarsinnar nútímans. Ég hef kannski valdið hæstv. utanríkisráðherra vissum vonbrigðum með því að gangast ekki undir þau svipugöng hennar að ég væri sérstakur einangrunarsinni.

Mér þykir auðvitað ágætt að hæstv. utanríkisráðherra dró nokkuð í land með ummæli sín í upphafi ræðu sinnar hér um þá sem ekki voru sammála henni á sínum tíma fyrir fjórtán árum eða sextán þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var hér til afgreiðslu. Það er alveg rétt að ef umræðan er skoðuð núna má finna þar ýmislegt sem ekki hefur gengið eftir og lítur kannski í ljósi stöðunnar í dag dálítið sérkennilega út. En ætli það sé ekki á báða bóga? Ætli það sé ekki þannig að þegar umræða rís um stór og umdeild mál, ekki síst ef tilfinningar eru nú heitar, þá vill fara svo að málsaðilar tali sig frekar í sundur en saman? Andstæðingar málsins tína til þau rök og draga þau oft dökkum litum en stuðningsmenn mæra málið mjög og tala um ósköp og heimshörmungar sem af því muni hljótast ef það verður ekki samþykkt. Nákvæmlega þannig var það með umræðuna um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma. Það er aldrei merkilegt í stjórnmálaumræðum að láta ekki umræður af þessu tagi njóta sannmælis og hafa það í huga að þær eru börn síns tíma. Ef menn vilja vitna af sanngirni í hlutina þá hafa þeir það í huga.

Ég skal játa hvað gerði það að verkum að ég kipptist dálítið við og fundust þessi ummæli hæstv. utanríkisráðherra, eins og ég sagði, ósanngjörn og mér fundust þau reyndar ónotaleg. Það var vegna þess að mér varð hugsað til fyrrverandi flokkssystra hæstv. utanríkisráðherra, ágætra vinkvenna minna margra í Kvennalistanum sem greiddu atkvæði gegn samningnum og áttu sinn þátt í málflutningi gegn honum hér. Mér fundust það dálítið kaldar kveðjur satt best að segja sem voru fólgnar í þessum orðum, ekki síst í þá átt.