135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:43]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Komið er að lokum þessarar umræðu og kannski ekki mikið annað að gera en að segja amen á eftir efninu. Mig langar samt að koma rétt aðeins inn á örfá atriði sem komu fram í máli annars vegar hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hins vegar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ögmundur Jónasson hélt áfram þar sem frá var horfið áðan og talaði um þjónustutilskipunina og afstöðu Samfylkingarinnar til þess sem hann kallaði heilbrigðistilskipunina en hann hafði spurt mig að því hér áður hvort ég væri tilbúin að beita mér fyrir því að neitunarvaldið yrði notað ef hún yrði að veruleika. Ég hef svarað því til hér í umræðunni áður og get endurtekið það að ég tel ekki, að svo komnu máli, ástæðu til að svara slíkri tilgátuspurningu vegna þess að þessi heilbrigðistilskipun er ekki orðin til, hún er ekki einu sinni orðin til sem tillaga. Fyrst er að sjá hver tillagan er og hvernig málum fram vindur áður en hægt er að fjalla um það.

Þingmaðurinn minntist á undirskriftir 510 þúsund einstaklinga og borgarstjóra í mörgum stórum borgum í Evrópu og mig minnir að hann hafi sagt áðan að þetta hefðu verið mótmæli fólks við þjónustutilskipunina og heilbrigðistilskipunina sem part af henni. Ég hef verið að glugga í gögn á meðan ég hef setið hér af því að ég vissi ekki alveg deili á þessu og mér sýnist að málið sé alls ekki þannig vaxið, að þetta séu ekki mótmæli. Þetta er stuðningur við það að tilskipun um almannaþjónustu verði til, að Evrópusambandið samþykki sérstaka tilskipun um almannaþjónustu þar sem slík þjónusta er skilgreind, sem er þá alveg sérstakt fyrirbæri. Eins og ég gat um í ræðu minni í dag sagði ég einmitt að ég hefði mikinn áhuga á að fylgjast með því hver framvindan yrði með sérstaka tilskipun um almannaþjónustu. Það hefur að vísu ekki fengið undirtektir í framkvæmdastjórninni heldur hefur ákveðin skilgreining á almannaþjónustunni verið sett inn í sáttmálann um Evrópusambandið. Ég tel fulla ástæðu til að fylgjast vel með þessu og gefa þessu gætur því að þarna yrði þá skilgreint hver væri réttur íbúa Evrópusambandsins til almannaþjónustu.

Aðeins varðandi raforkutilskipunina. Því hefur verið svarað að þegar búið er að semja sig inn í tilskipun — við höfum alltaf sagt að það væri mjög auðvelt að semja við Evrópusambandið og ég held að það standi alveg — geti verið erfiðara að taka upp þá samninga hafi menn einu sinni samið af sér. Þess vegna þarf auðvitað að standa vaktina og það er ekki hægt að láta slag standa og sjá hvernig til tekst.

Varðandi það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um fortíðina þá er ég í sjálfu sér ekki að gera gys að því sem sagt var í fortíðinni, ég tel mjög mikilvægt að menn meti þau rök sem þá voru leidd fram og dragi af því lærdóm í umræðunni, hvaða rök gilda þegar við tölum um svona mál. Orðaleppar og einhverjir merkimiðar hafa mjög takmarkað gildi og það sýnir sig þegar við skoðum umræðuna í spegli tímans. Þetta er fyrst og fremst hagsmunamat, þetta er pólitískt mat á framtíðarþróun. Það er auðvitað sjálfsagt að menn hafi mismunandi afstöðu til hlutanna en það eru rökin sem færð eru fram og hvernig þau eru búin út sem við getum skoðað og lært heilmikið af. Upprifjun er alltaf holl og góð og sjálfsögð og menn mega ekki vera of hörundsárir gagnvart því.

Stundum hefur verið sagt að þeir sem þekkja fortíðina skilji nútíðina og þeir séu bestir til að búa til framtíðina. Það skiptir auðvitað máli að við metum söguna, metum það sem sagt var og metum þau rök sem færð voru fram því það getur auðveldað okkur í þeirri umræðu sem við eigum fyrir höndum.