135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:52]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit í sjálfu sér ekki alveg hvar á að bera niður í þessu en það sem ég var að beina sjónum þingmanna að áðan og svara því sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni var að þessar undirskriftir og það sem kom fram hjá borgarstjórunum voru í sjálfu sér ekki mótmæli, það getur vel verið að þeir séu gagnrýnir á þjónustutilskipunina en það voru ekki mótmæli við þeirri tilskipun. Það var stuðningur við það að sett yrði tilskipun um almannaþjónustu og hún yrði skilgreind — ég er með einmitt útprent af heimasíðum frá „European Trade Union Confederation“ og eins frá borgarstjórunum — það er þetta sem málið snýst um af þeirra hálfu. Þar er svolítill munur á, þ.e. hvort menn eru að mótmæla einhverju sem fyrir liggur eða hvort menn eru að tala fyrir því að eitthvað tiltekið verði gert, sem er að taka upp tilskipun um almannaþjónustuna.

Þetta eru auðvitað ekki einföld mál sem hér er um að ræða og þau eru umdeild, alveg eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Það getur í sjálfu sér líka verið erfitt að skilgreina hvaða þjónusta er í almannaþágu, það getur tekið yfir mjög víðtækt svið sem hefur mikil áhrif á daglegt líf borgaranna. Við getum verið að tala um orkumál, fjarskipti, samgöngur, menntamál, sorphirðu, heilsugæslu, félagslega þjónustu og margt, margt fleira. Þarna er mjög margt undir. En ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður að auðvitað er full ástæða til að fara yfir þessi mál og skoða þau og fylgjast með því sem þarna er að gerast. Ég mun gera það í utanríkisráðuneytinu, hvernig verður með þessa tilskipun og framvinduna varðandi almannaþjónustuna og ég hvet líka utanríkismálanefnd þingsins til að gera það.