135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.

[15:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég get fullvissað þingmanninn um að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins ganga fullkomlega í takt í þessu máli eins og flokkurinn allur. Það sem hv. þingmaður (Gripið fram í.) vitnar í er það sem varaformaður flokksins sagði í Valhöll á laugardaginn, að það væri eðlilegt að fyrirtæki gerðu upp í öðrum gjaldmiðli ef þau kærðu sig um, að sjálfsögðu að uppfylltum þeim skilyrðum sem lögin um ársreikninga gera ráð fyrir. Þingmaðurinn talar eins og hann viti það ekki, sem hann þó veit, að hér voru samþykkt lög árið 2001 að mínu frumkvæði sem heimila fyrirtækjum að gera upp í erlendri mynt ef þau uppfylla skilyrði alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna. Þau geta sem sagt gert upp í annaðhvort íslenskri krónu eða því sem kallað er starfrækslugjaldmiðill. Þannig vill til að yfir 200 fyrirtæki á Íslandi gera það. Mig minnir að þau séu 212 í dag, eða 219 kannski. 112 gera upp í dollurum og rúmlega 70 í evrum, önnur fyrirtæki í öðrum gjaldmiðlum. Þingmanninum þarf ekki að koma á óvart þótt vitnað sé til þessara reglna.

Það sem liggur fyrir um fjármálafyrirtækin er að ársreikningaskráin kvað upp ákveðinn úrskurð um að viðkomandi fyrirtæki gætu gert upp ársreikninga sína í erlendri mynt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er núna verkefni fjármálaráðherrans að úrskurða um þá kæru sem til hans var beint út af þessu máli. Það er óeðlilegt að ég segi honum fyrir verkum úr ræðustól Alþingis um það hvernig hann eigi að úrskurða um þetta mál.

Að öðru leyti eru vangaveltur þingmannsins um gjaldmiðilinn ekki á réttum stað. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar á gjaldmiðlum á Íslandi á næstunni.