135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

GSM-samband og háhraðatengingar.

[15:23]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst ætla ég að fá að klára það sem ég var að segja um háhraðatengingarnar í fyrra svari mínu. Staðan er einfaldlega þessi: Útboðsgögn eru, eins og ég segi, að verða tilbúin. Þetta getur náð til allt að 1.500 býla á landinu en ekki 200 eins og menn voru að vinna við í nokkuð langan tíma, þetta fari sem sagt út. Ég veit ekki nákvæmlega hvað tilboðsfresturinn verður langur en í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta:

„Tryggja ber að landsmenn hafi allir færi til að nýta sér þá byltingu sem orðin er í gagnaflutningum.“ — Eftir þessu er auðvitað unnið. Tækninni fleygir fram. Þó að við séum frekar óhress með að þetta sé ekki búið hefur samt verið athyglisvert að hlusta á aðila sem hafa mikið vit á þessu og tala stundum jafnvel um að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Jafnvel að þetta skuli ekki vera búið getur orðið til að við fáum enn þá betri tilboð í enn þá betri tækni en áður hefur verið talað um í háhraðatengingunum.

Til að svara hv. þingmanni (Forseti hringir.) segi ég bara þetta: Háhraðatengingarnar eru að fara út og GSM-útboð 2 er á fleygiferð eins og dæmin sanna núna frá Ströndum.