135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

sérstaða Íslands í loftslagsmálum.

[15:30]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra sem var til umræðu í síðustu viku kemur fram að það eru yfirgnæfandi líkur á því að viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda komi til framkvæmda hér á landi og falli undir EES-samninginn. Það kemur fram í skýrslunni að á Íslandi eru yfir 80 stórar flugvélar á skrá og það hafi verið einhver vilji innan ESB til að taka tillit til jaðarsvæða. Það kemur einnig fram að Ísland vill að sérstaða okkar sé viðurkennd í þessu nýja kerfi gagnvart fluginu sem er væntanlega á leiðinni sem er m.a. vegna þess að við búum langt frá öðrum löndum og eigum ekki auðvelt um vik að fara akandi til annarra landa eða í lestum eða með skipum þannig að við notum mikið flug.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur barist gegn því að við fengjum viðurkennda sérstöðu Íslands hvað varðar endurnýjanlega orku á vettvangi Kyoto-bókunarinnar og alltaf talað það niður. Hún vill ekki að sú sérstaða verði viðurkennd áfram eða íslenska ákvæðið þegar við semjum aftur, líklega árið 2009 í Kaupmannahöfn. Nú spyr ég: Hvernig færir hæstv. umhverfisráðherra rök fyrir því að Ísland eigi núna að fá sérstöðu sína viðurkennda gagnvart fluginu en ekki endurnýjanlegri orku? Eins og við vitum er endurnýjanlega orkan umhverfisvæn. Við erum að spara andrúmsloftinu gróðurhúsalofttegundir. Það gerum við alls ekki með fluginu. Við erum ekki með eitthvert annað eldsneyti á okkar flugvélum en önnur ríki. Hvernig getur hæstv. umhverfisráðherra rökstutt það að vilja viðurkenna sérstöðu okkar á einum vettvangi en ekki öðrum?

Ég skil hins vegar mjög vel að hæstv. ráðherra reyni að koma mönnum í Evrópusambandinu í skilning um þessa sérstöðu. Hún er fyrir hendi og finnst mér mjög eðlilegt að vinna að því, en hvernig dettur hæstv. ráðherra þá í hug að tala niður íslenska ákvæðið (Forseti hringir.) í Kyoto-bókuninni um endurnýjanlega orku?