135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[15:48]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel þetta frumvarp ákaflega athyglisvert og tímabært af ýmsum ástæðum og kem ekki auga á þær aðstæður í nútímanum sem stæðu á bak við þá skipan sem við höfum hér erft frá fortíðinni. Ég vil hins vegar spyrja hv. flutningsmann að því hvort hann hafi nokkra hugmynd um þann kostnað sem þetta tilstand hefur í för með sér, eins og segir hér í greinargerðinni. Það er þannig, hygg ég, að handhafarnir svokölluðu fá laun á meðan þeir eru handhafar sem bætast ofan á nokkuð ríflega laun sem þeir hafa fyrir, forseti Alþingis, forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar. Nú veit ég ekki hvort þeir fá allir forsetalaun eða hvort þeir skipta þeim með sér en forsetalaunin eru hálf önnur milljón á mánuði, ég man ekki nákvæma tölu, og forseti þarf ekki að vera lengi í burtu til þess að það fari að safnast saman.

Ég spyr um þetta í sakleysi mínu hvort nokkur leið sé að svara þessari spurningu í umræðunni.