135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[15:49]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum spurninguna. Ég hef af kurteisisástæðum ekki talið rétt að vera að hnýsast í það hversu mikill kostnaður hefur verið af þessum tilfærslum. Það fer auðvitað eftir því hversu oft forsetinn fer og hversu lengi hann er, væntanlega, vegna þess að ég skil fyrirkomulagið svo að jafnskjótt og hann er farinn úr landi séu þrír embættismenn komnir á laun sem handhafar forsetavalds.

Ég hef ekki tiltækar neinar ákveðnar tölur en ég held að það sé rétt munað hjá mér að í þeirri umfjöllun sem átti sér stað í fjölmiðlum á síðasta ári um málið hafi verið talað um kostnað á annan tug milljóna á hverju ári. Kannski mætti beina þessari fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem stundum tekur að sér að vera handhafi forsetavaldsins þegar þannig stendur á.