135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[15:52]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ellerti B. Schram fyrir að flytja það mál sem hann gerði hér í dag. Ég get tekið undir sumt af því sem hann sagði í framsöguræðu sinni og annað síður. Það er raunar ekki ný umræða að fyrirkomulagið sem hér er varðandi handhöfn forsetavalds og staðgöngu fyrir forseta Íslands er mjög sérstætt og á sér ekki hliðstæðu með beinum hætti svo ég þekki til. Í umræðu um þetta atriði hafa komið upp ýmis sjónarmið og ég hygg að ég fari rétt með að Bjarni Benediktsson, Ólafur Jóhannesson og fleiri sem um stjórnarskrármál hafa fjallað hafa vakið athygli á því að þetta væri sérkennilegt fyrirkomulag og að nokkru leyti nokkuð viðurhlutamikið að kalla þrjá menn til staðgöngu fyrir forseta þegar hann er fjarstaddur.

Ég verð hins vegar að segja fyrir mig að þó að það sé vissulega atriði sem engin ástæða er til annars en skoða í umfjöllun um breytingar á stjórnarskrá þá er þetta ekki meðal þeirra atriða sem ég mundi telja meðal þeirra brýnustu. Ég held að það hafi ekki valdið neinum sérstökum vandkvæðum í framkvæmd og raunar verð ég að segja að þó að fyrirkomulagið sé vissulega nokkuð sérstætt þá er það að mínu mati nokkuð snjallt. Þar er undirstrikað hvernig ríkisvaldið er þrískipt í framkvæmdarvald, dómsvald og löggjafarvald og fulltrúar þessara þriggja stoða ríkisvaldsins koma til þegar forsetinn er fjarverandi þannig að mér finnst þetta nokkuð góð lausn frá táknrænu sjónarmiði. Varðandi kostnaðinn er hann ekki teljandi vandamál þó að þarna sé um einhverjar milljónir að ræða. Þetta er því ekki atriði sem ég tel neitt brýnt að breyta og raunar hef ég verið þeirrar skoðunar að það séu ýmis önnur atriði og ákvæði í stjórnarskrá sem varða forsetaembættið sem brýnna væri að taka til endurskoðunar og umræðu. Þá á ég við atriði eins og þau sem hv. þm. Ellert Schram vakti athygli á, atriði í stjórnarskrá sem ekki standast tímans tönn og eru úrelt eða gefa röng skilaboð, ef svo má segja. T.d. má nefna þau fjölmörgu ákvæði stjórnarskrár sem segja skýrum orðum að forseti geri eitthvað eða hafi eitthvert tiltekið vald sem allir vita og skýrt er í framkvæmdinni að forseti hefur ekki vegna þá annarra ákvæða stjórnarskrárinnar sem beinlínis taka það vald frá forseta.

Það er því full ástæða að mínu mati til þess að fara yfir I. og II. kafla stjórnarskrárinnar þar sem m.a. er fjallað um forsetaembættið og æðstu handhöfn ríkisvaldsins í landinu og sjálfsagt að taka það atriði inn í þá umræðu sem hv. þm. Ellert B. Schram vekur hér athygli á. Ég vildi undirstrika við þessa umræðu að mér finnst að þar séu hugsanlega önnur atriði sem meira ríður á að skoða.

Auðvitað er líka ljóst að í endurskoðunarvinnu við stjórnarskrána sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili voru ýmis atriði sem varða forsetaembættið töluvert til umræðu. Það kann að vera misminni hjá mér en ég man ekki sérstaklega eftir því að þetta atriði hafi komið þar inn en mér finnst hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að það verði gert á síðari stigum. Boðað hefur verið til þess af hálfu hæstv. forsætisráðherra að frekari vinnu sé að vænta við endurskoðun stjórnarskrárinnar þegar líður á þetta kjörtímabil og þá er ekkert óeðlilegt að þetta tiltekna atriði komi þar inn í.

Þá væri um leið nauðsynlegt að huga að því hvernig ákveðnum praktískum spurningum er svarað í sambandi við þetta mál. Ef fallist væri á tillögu hv. þm. Ellerts B. Schrams væri sú staða uppi að enginn gæti undirritað fyrir hönd forseta nema hann sjálfur. Nú er það þannig að á hverju ári þurfa sjálfsagt á annað hundrað lagafrumvörp staðfestingu forseta. Ég hygg að ýmsar ákvarðanir á sviði framkvæmdarvaldsins þurfi einnig undirskrift þó að þeim hafi farið fækkandi í seinni tíð. Í öllum þessum tilvikum er gert ráð fyrir staðfestingu með eiginhandarundirritun forseta eða þá handhafa forsetavalds og það þyrfti með einhverjum hætti að svara þeirri spurningu hvernig haga ætti þessum málum.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ellerts B. Schrams að fjarskiptasambönd hafa batnað og hugsanlega mætti leysa málið með einhverjum rafrænum hætti, rafrænni undirskrift eða undirskrift með faxi eða einhverju slíku. Það þyrfti einhvern veginn að ganga tryggilega frá því að það gerðist. Ég veit ekki hvort mönnum þætti fara vel á því að lög væru staðfest með SMS-sendingu, það verður eiginlega hver að gera upp við sig.

Staðreyndin er auðvitað sú, eins og fram hefur komið við þessa umræðu, að forseti Íslands er staddur erlendis stóran hluta ársins. Það er ekki eins og um sé að ræða einhverjar örfáar tilfallandi ferðir á hverju ári heldur er það svo að forseti er í opinberum heimsóknum, vinnuferðum og öðrum erindagjörðum erlendis stóran hluta ársins þannig að þarna er um að ræða praktískt atriði sem þarf að taka tillit til. Ég hef auðvitað ekki, frekar en aðrir þingmenn hér, yfirlit yfir ferðalög forseta en ég hygg að ferðalög forseta geti tekið frá þriðjungi ársins og jafnvel lengri tíma þegar allt er talið saman þannig að auðvitað er um það að ræða að stóran hluta ársins er forseti ekki á staðnum. Þá þarf að finna einhverja aðra leið en undirritun handhafa til þess að leysa þessi mál nema menn komist að þeirri niðurstöðu, sem er auðvitað hugsanleg í sambandi við vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, að undirritun forseta sé ekki nauðsynleg. Það er auðvitað alveg hugsanlegt í þessu tilviki að niðurstaða endurskoðunar á stjórnarskránni verði á þá leið að staðfesting forseta á lagafrumvörpum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gert er ráð fyrir í dag verði ekki fyrir hendi til framtíðar og þá er auðvitað ekkert vandamál að leysa, þá leysir það sig sjálft.

Þetta eru allt þættir sem taka þarf inn í þessa umræðu þegar farið verður yfir málið. Ég geri engar athugasemdir og fagna því að hv. þingmaður komi með þetta tiltekna atriði inn í umræðuna þótt ég ítreki það sem ég hef áður sagt að ég telji önnur mál sem varða handhöfn ríkisvaldsins brýnni í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég sé þó ekkert því til fyrirstöðu að þetta verði tekið með í skoðun á stjórnarskránni og að menn vegi og meti hvort það fyrirkomulag sem við höfum haft sé gott, hvort einhver sérstök vandamál fylgi því og þar af leiðandi hvort ástæða sé til að breyta því.