135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Í umræðu hér í síðustu viku fór ég nokkrum almennum orðum um mín sjónarmið varðandi breytingar á stjórnarskránni eða frumvörp til stjórnarskipunarlaga sem gera að sjálfsögðu ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni og skal ekki endurtaka það við þetta tækifæri.

En af því tilefni sem gefið hefur verið hér þá má fara mörgum orðum um þann kafla stjórnarskrárinnar sem 8. gr. sem hér er til umræðu tilheyrir. Vissulega er eitt og annað þar sem þyrfti að færa til nútímalegra horfs. Mætti ég til dæmis benda þingmönnum á 30. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“

Það er að segja væntanlega þá til 1944 þegar þessi ákvæði voru fyrst sett. Svona mundi nú enginn held ég semja hvorki lög né stjórnarskrá í dag. Svona orðalag er náttúrlega fullkomlega úrelt.

En við höfum á Íslandi það fyrirkomulag að vera ekki með varaforseta og frá upphafi hafa handhafarnir þrír gegnt því hlutverki sem varaforsetar gegna sums staðar annars staðar, sem fulltrúar hinna þriggja greina ríkisvaldsins. Mér finnst fara vel á því að mörgu leyti.

En það hefur verð rætt um það hér að hlutverk forseta, hið formlega hlutverk gagnvart þinginu, væri fyrst og fremst að staðfesta lög. En það er auðvitað miklu fleira sem forsetinn gerir og þarf að vera formlega rétt gert. Það er til dæmis það að leggja fram lagafrumvörp. Það er leitað staðfestingar forseta á öllum stjórnarfrumvörpum sem hingað koma auk þess sem hann ritar nafn sitt undir samninga við erlend ríki og fleiri afgreiðslur sem koma frá ríkisstjórninni til hans.

Það er á stundum hrein tilviljun sem ræður því hvort það er forsetinn eða handhafar forsetavaldsins sem rita undir þessar afgreiðslur og gjörninga og skiptir í rauninni ekki máli því samkvæmt 11. gr. stjórnarskrárinnar er forsetinn eða þeir sem fara með vald hans ábyrgðarlausir á stjórnarathöfnum. Handhafar forsetavalds hafa því boðað hér þing saman eða lagt fram tillögur til frestunar á störfum þingsins eða þá stundum verið önnum kafnir við að skrifa nafn sitt undir tillögur eða samþykkja tillögur um að leggja fram lagafrumvörp fyrir utan það að staðfesta lagafrumvörp og veita þeim með þeim hætti lagagildi.

Hér eru sem sagt gamlar venjur á grundvelli þessara ákvæða sem ég tel nú ekkert sérstakt tilefni til þess að taka upp sérstaklega og breyta. Ég tel miklu nær að velta fyrir sér hugmyndum eins og þeim sem hv. þm. Jón Magnússon drap hér á, um svona heildarverksviðið í þessu eða heildarfyrirkomulagið. Það væri þá gert í samhengi við aðrar og fleiri breytingar á stjórnarskránni.

Því var beint til mín, virðulegi forseti, hvernig háttað væri greiðslum fyrir störf handhafa forsetavaldsins. Í 9. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald.“

Með öðrum orðum er stjórnarskrárákvæði að baki þessum greiðslum og mér skilst að frá upphafi hafi þetta verið túlkað þannig að handhafar forsetavaldsins skipti á milli sín jafnháum greiðslum og renna til forseta þann tíma sem hann er fjarverandi, þ.e. sé forsetinn fjarverandi eina viku þá skipta handhafarnir á milli sín vikulegum eða því sem nemur vikulegum greiðslum til forsetans. Þannig hefur þetta verið frá upphafi eftir því sem ég kemst næst og þá geta menn bara reiknað út á grundvelli þess hver mánaðarlaun forsetans eru, að ef forsetinn er vikulega í hverjum mánuði fjarverandi þá er þetta tiltölulega einfalt reikningsdæmi.