135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:23]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá þingmanninum að ég hafi sérstaklega tekið undir með hv. þm. Jóni Magnússyni varðandi þær hugmyndir sem hann nefndi. Ég sagði hins vegar að ég teldi sjálfsagt að velta slíkum hugmyndum fyrir sér jafnvel frekar en hugmyndinni sem fram kemur í frumvarpi hv. þm. Ellerts B. Schrams.

En það er auðvitað líka rétt, sem hv. þm. Mörður Árnason sagði, að þetta voru lauslegar vangaveltur hjá hv. þm. Jóni Magnússyni og er ég ekkert að taka undir það frekar en sem því nemur að ljóslega er um vangaveltur að ræða. Hins vegar eru þetta hugmyndir sem hafa verið ræddar, t.d. í stjórnarskrárnefnd, og eru þar af leiðandi ekki alveg nýjar af nálinni þó að þær séu að öllum líkindum ekki sérstaklega raunhæfar.