135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:26]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og ég skil þetta þá eru tvær útgáfur af þingræðinu. En þingræðið er auðvitað það að ekki sitji stjórn án stuðnings þingsins eða gegn vilja þingsins. Það eru einmitt útgáfurnar. Önnur útgáfan er þannig að þingið þurfi að samþykkja ríkisstjórn en hin er sú að ríkisstjórn geti ekki setið ef þingið stendur á móti setu hennar, lýsir yfir vantrausti á hana. Það er í raun og veru sú útgáfa sem við höfum hér, sú hin síðari, að ríkisstjórn situr þangað til vantrausti er lýst á hana.

Ég held að það séu ekki mikil millistig í þessu. Þó að ekki sé þingræði í Bandaríkjunum, þingið hefur mikil völd en það er ekki þingræði í þessum skilningi, þá fylgist það vel með og þarf t.d. að samþykkja ráðherraskipan forsetans. Þannig að það eru auðvitað til þarna millistig þó að línan sjálf milli þingræðis og ekki þingræðis sé tiltölulega skýr.

Ég ætlaði nú ekki að fara að dikta þessar tillögur upp á Jón Magnússon. Veit vel að þetta hefur verið rætt áður, sérstaklega hin fyrri um sérstakt kjör forsætisráðherra eða sérstakt kjör forseta sem skipi þá forsætisráðherra án aðstoðar þingsins, skulum við segja. Hina síðari, um það að störf þingsins eða forsetans fari saman, hef ég nú hingað til aðeins heyrt í þeirri mynd að forseti Alþingis, sem kjörinn er úr hópi þingmanna, verði síðan forseti Íslands í eins konar hjáverkum. Sú tillaga hefur komið frá nokkrum þingmönnum og hugmyndafræðingum Sjálfstæðisflokksins og ég hef satt að segja aldrei gert meira með það en sá uppruni verðskuldar.