135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:38]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum og hæstv. forsætisráðherra fyrir þátttöku þeirra í þessari umræðu og fróðleg innlegg að því er varðar stjórnarskipunarlögin og þá sérstaklega stöðu forseta Íslands. Þessi umræða hefur raunar farið svo um víðan völl og í hæstu hæðir að mér þykir rétt að minna á að í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum. Það er ekki verið að leggja niður handhafa forsetavaldsins eins og réttilega var bent á hérna áðan. Það er eingöngu verið að tala um að það þurfi ekki að kalla til þrjá handhafa forsetavaldsins þegar forseti Íslands dvelur erlendis. Að öðru leyti verður sama skipan á málum ef um sjúkleika er að ræða eða af öðrum ástæðum, að þá verði kallaðir til þrír handhafar forsetavalds, hér er eingöngu gert ráð fyrir því að verið sé að fella út úr stjórnarskránni þau orð sem segja til um að það verði að kalla til þrjá handhafa forsetavaldsins hvenær sem forseti þarf að fara úr landi, hversu stutt eða lengi sem hann dvelur erlendis.

Þetta er inntak frumvarpsins og tilgangurinn er auðvitað sá að fella niður úrelt ákvæði og laga að nútímanum og eins og hv. síðasti þingmaður Birgir Ármannsson sagði, það þarf að laga orðalag stjórnarskrárinnar og samræma að veruleikanum. Lengra nær þetta frumvarp ekki.

Ég kann vel að meta þær fróðlegu umræður, þær akademísku umræður sem hér hafa farið fram um stöðu forsetans og um vald hans og ég tek undir að það þarf vissulega að ræða það og taka afstöðu til þess hvort við viljum breyta neitunarvaldi forsetans, hvað á að gera með þjóðaratkvæðagreiðslur, hver á staða forsetans að vera í pólitískum skilningi, eins og hér hefur verið rætt fram og til baka. Þetta eru allt saman áleitnar spurningar en ég leyfi mér að segja að þetta er náttúrlega jarðsprengjusvæði að því leyti að við komumst ákaflega lítið áfram vegna þess mikla ágreinings sem er um stefnuna til framtíðar og kannski endurspeglast sá ágreiningur í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram sl. klukkutíma. Ég er ekki að gera lítið úr þessari umræðu, ég tel að hér hafi komið fram margar mjög athyglisverðar hugmyndir og ábendingar en sú tillaga, ein og sér, sem hér liggur fyrir gefur bara ekki tilefni til alls þessa.

Vandinn í þessu er náttúrlega nú sem áður að menn segja: Ja, þetta er góð og gild tillaga en við þurfum samt að skoða heildarverksviðið allt. Þá hefja menn svona akademískar umræður sem leiða því miður ekki til neinnar niðurstöðu. Ég hef áhyggjur af því — ég verð að segja það eins og er, eins og maðurinn sagði — að okkur verði lítið ágengt um praktískar breytingar á stjórnarskránni sem eiga að vera í samræmi við veruleikann af því að menn segja alltaf: Ja, það þarf að skoða málið í heild sinni. Svo gerist aldrei neitt.

Ég gerði mér mjög vel grein fyrir því að þetta yrði ekki meðal þeirra brýnustu verkefna og mála sem snúa að stjórnarskránni og breytingum á henni, ég gerði mér fyllilega grein fyrir því. En þetta er bara eitt praktískt atriði sem ég held að sé mjög auðskilið og ég hélt að væri sjálfsagt, að breyta þessu fyrirkomulagi um að kalla til þrjá virðulega embættismenn til að fara með handhöfn forsetavaldsins þá og þegar forseti Íslands bregður sér úr landi.

Hæstv. forsætisráðherra benti á það hér áðan að það væri fleira en að staðfesta lög, hann þyrfti að skrifa undir samninga og samþykktir og vera til taks af ýmsum öðrum ástæðum. Menn hafa talað um hvort það ætti kannski að fela forseta Alþingis þetta starf. Mér finnst vel koma til greina að kveðið sé á um það að ef forsetinn dvelur erlendis um einhvern tiltekinn tíma geti hann samkvæmt heimild í stjórnarskrá eða annars staðar gefið umboð sitt til tiltekins embættismanns um að hann skrifi undir fyrir sína hönd og með sínu samþykki. Forsetinn á að mínu áliti að hafa völd, hvort sem hann er hér heima eða erlendis á hann ekki að þurfa að framselja forsetavaldið til annarra þó að hann dvelji erlendis. Hann er kjörinn og þegar hann er kjörinn er hann náttúrlega kjörinn hvort sem hann er hér heima eða ekki. Hann getur því eftir atvikum afhent eða afsalað umboði til einhvers tiltekins háttsetts embættismanns sem getur þá farið með undirskriftarheimildina í umboði forsetans. Þetta held ég að sé eftir atvikum útfærsluatriði ef og þegar menn geta fallist á þessa hógværu en sjálfsögðu tillögu að öðru leyti.

Herra forseti. Ég þakka enn og aftur fróðlega, ágæta og líflega umræðu. Ég vona að menn einbeiti sér að þessari tillögu þegar kemur að stjórnarskrárnefndinni en segi ekki: Þetta verður sett í pakkann, þetta verður rætt með öllum hinum vandamálunum og viðfangsefnunum og svo því miður niðurstaðan sú að ekkert gerist.