135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:10]
Hlusta

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir sögulegt yfirlit yfir stöðu jafnréttismála í Framsóknarflokknum. Engu að síður sakna ég þess að efnisleg umræða fari fram af hálfu þingmannsins um tillöguna sem hér liggur fyrir að öðru leyti en því að hv. þingmaður taldi þetta ekki þarft innlegg í jafnréttisumræðuna, að önnur mál væru brýnni.

Þetta er akkúrat það sem við erum alltaf að glíma við, við sem vinnum að jafnréttismálum. Það er alltaf bent á eitthvað annað. Það er alltaf eitthvað annað sem er mikilvægara en það sem verið er að tala um í dag. Auðvitað eru mörg mál sem brýnt er að ræða varðandi jafnréttismál en eitt útilokar ekki annað.

Launamálin. Það var minnst á þau hér áðan. Sú sem hér stendur hefur mikla reynslu af því úr fyrri störfum sínum að hafa látið jafnréttismálin tala varðandi launamál og samninga við stórar kvennastéttir. Ég stóð að meiri hluta í Reykjavíkurborg í 12 ár sem byggði m.a. á kvenfrelsi. Þar voru verkin algjörlega látin tala þannig að aðalatriðið er að eitt útilokar ekki annað.

Við höfum rætt jafnréttisfrumvarp hæstv. félagsmálaráðherra hér á þinginu sem nú er komið í farveg þar sem tekið er á mörgum brýnum málum. Aðalatriðið í þessu máli er að kona getur aldrei verið herra frekar en hv. þm. Höskuldur Þórhallsson getur verið frú.

Þessi hefð helgast af því að þegar stjórnskipan okkar var sett á laggirnar voru karlar þeir einu sem gegndu þessum stöðum. Það voru ekki konur. Ef það hefðu verið konur er ég alveg viss um að við værum að fást við heitin „ráðfrúr“ eða „ráðfrú“. Við værum reyndar örugglega þegar búin að breyta þeim fyrir (Forseti hringir.) 20 eða 30 árum til að (Forseti hringir.) jafna stöðu karla og kvenna og taka upp kynhlutlausari orð sem karlar gætu sætt sig við.